Mismunandi spár um verðbólgu sem birt er á morgun

Landsbankinn spáir því að verðbólga hækki örlítið og verði 7,8% …
Landsbankinn spáir því að verðbólga hækki örlítið og verði 7,8% í september, en Íslandsbanki gerir ráð fyrir að hún mælist 8%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á morgun verða nýjar tölur um vísitölu neysluverðs birtar, en á þeim byggir verðbólgan margumtalaða. Greiningaraðilar spá því að ársverðbólgan muni hækka aðeins, en eru þó á nokkuð mismunandi skoðun um hversu mikið hún hækki og hversu hratt hún fari niður á næstu mánuðum.

7,8% eða 8% á morgun?

Samkvæmt uppfærðri spá hagfræðideildar Landsbankans spáir bankinn nú að vísitalan hækki um 0,21% og að ársverðbólgan hækki þar með úr 7,7% upp í 7,8%, en áður hafði bankinn spáð því að verðbólgan stæði í stað. Hagfræðideildin spáir svo nokkuð skarpri lækkun í október niður í 7,3% og í 6,9% í nóvember og að lokum 6,8% í desember.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því hins vegar að hækkunin í þessum mánuði verði umtalsvert meiri og að verðbólgan hækki upp í 8% áður en hún lækki í 7,7% í október og 7,6% í bæði nóvember og desember. Greiningardeildin spáir því svo að verðbólgan muni hjaðna nokkuð hratt á næsta ári og verði komin í 5,2% í maí.

Lítil hækkun í september í fyrra

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að spá bankans upp á 7,8% verðbólgu í þessum mánuði hafi verið uppfærð eftir nýjustu tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og þar hafi meiri hækkun á leiguliðnum valdið aðeins hærri verðbólguspá.

Þá nefnir hann að hækkunin í september í fyrra hafi verið frekar lítil og því þurfi ekki mikla breytingu í þessum mánuði til að verðbólgan haldist stöðug. Í október í fyrra var hins vegar hækkunin umtalsvert meiri, eða um 0,7% á vísitölunni og því sé nokkuð líklegra að það komi til lækkunar þegar slíkur hækkunarmánuður falli út.

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum.
Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum. Ljósmynd/Aðsend

Hefðbundnir áhrifaþættir

Helstu áhrifaþættir í spánni núna í september eru að hans sögn frekar hefðbundnir. Húsnæðisleiga að hækka, áhrif af útsölum að ganga til baka og þá komi inn gjaldskrárhækkanir á þjónustu ýmis konar. Nefnir hann í því sambandi t.d. gjaldskrá fyrir íþróttaástundun barna og slíkt. Þá sé gert ráð fyrir nokkurri lækkun flugfargjalda sem tengist ártíðarsveiflu, en Hjalti tekur þó fram að alltaf þurfi að setja mikinn fyrirvara við flugliðinni. Hann eigi það til að hækka eða lækka hraðar til skiptis en flestir aðrir liðir.

Hjalti segir að þegar verðbólgan dragist á langinn eins og nú er orðið fari hún dreifast víðar og erfiðara verði að ná henni niður. Nefnir hann sem dæmi að ef einn eða nokkrir liðir hafi upphaflega dregið hækkunartaktinn, þá smitist það svo út í aðra þjónustu og þá verði alltaf erfiðara að ná böndum á verðbólguna.

Hins vegar nefnir hann einnig að verðbólgan hafi frá í febrúar lækkað úr 10,2% niður í 7,7% og þó það sé nokkuð hægara en búist hafi verið við sé það engu að síður nokkur lækkun.

Uppfærða spá Landsbankans má sjá í meðfylgjandi grafi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK