Flugfélagið Play áætlar að handbært fé í lok þessa ársfjórðungs verði um 39 milljónir bandaríkjadala, nærri 5,3 milljarðar íslenskra króna. Það er því mat stjórnenda Play að félagið þurfi ekki aukið fé til rekstursins.
Þetta kom fram á upplýsingafundi Play, fyrir fjárfesta og markaðsaðila, sem stendur nú yfir þar sem farið er yfir lykiltölur í rekstri, og er ítrekað í tilkynningu sem er send út samhliða fundinum.
Félagið áætlar að hagnaðurinn á sumarmánuðunum 2023, júní til ágúst, verði um 12 milljónir bandaríkjadala (1,6 milljarðar íslenskra króna), samanborið við 3 milljóna dala tap (400 milljónir króna) á sama tímabili í fyrra.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að tekjur á sumarmánuðunum 2023 hafi verið nær tvöfalt hærri en á sama tímabili árið 2022. Tekjur félagsins fóru úr 63 milljónum dala (8,6 milljörðum króna), í 116 milljónir dala (tæpl. 16 milljarða króna) á sumrinu 2023. Play flutti 537 þúsund farþega í sumar en umsvif félagsins hafa aukist töluvert á tímabilinu. Félagið tók inn fjórar nýjar farþegaþotur og bætti við sig 13 áfangastöðum fyrir sumarið. Félagið býst við að flytja um 1,5 milljónir farþega á þessu ári og um 1,8 milljónir farþega á næsta ári.
Einnig kemur fram að áætlað rekstrartap á árinu verður um 10 milljónir bandaríkjadala, samanborið við 44 milljónir bandaríkjadala í tap í fyrra. Viðsnúningurinn nemur því um 34 milljónum bandaríkjadala (um 4,6 milljörðum íslenskra króna). Þá áætlar Play að skila rekstrarhagnaði á árinu 2024.
„Nú þegar við nálgumst enda sumarvertíðarinnar, horfum við stolt um öxl á frammistöðu Play yfir sumarmánuðina og björtum augum á framtíðina. Við sjáum nú sterka fjárhagslega niðurstöðu þar sem tekjurnar nærri tvöfölduðust frá fyrra ári og félagið skilar 12 milljóna bandaríkjadala hagnaði á sama tímabili. Það er viðsnúningur frá tapi upp á 15 milljónir bandaríkjadala frá því í fyrra,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningunni.
„Lausafjárstaða okkar er góð og þegar tekið hefur verið tillit til fjárfestinga í stækkun flota er sjóðstreymi í jafnvægi. Þess vegna munum við ekki sækja aukið hlutafé við núverandi markaðsaðstæður. Eftir að hafa stækkað hratt á skömmum tíma höfum við náð þeirri stærð sem stefnt var að til að reka skilvirkt og arðbært félag og getum nú einblínt á að auka hagkvæmni enn frekar.”