Seðlabankinn þarf að endurgreiða 26 milljónir

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands á nefndarfundi Alþingis. Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, …
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands á nefndarfundi Alþingis. Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits og Gunnar Þór Pétursson, nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og fellt niður hluta af 35 milljóna stjórnvaldssekt sem fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands lagði á vátryggingarmiðlunarfyrirtækið Tryggingar og ráðgjöf, sem hefur meðal annars verið umboðsaðili trygginga slóvakíska vátryggingafélagsins Novis. Eftir stóð að 9 milljónir af 35 voru taldar réttmæt sekt.

Seðlabankinn lagði sektina á fyrirtækið í nóvember 2020, en fyrirtækið var þá talið hafa brotið gegn lögum um vátryggingasamninga með því að upplýsa ekki 125 af 158 viðskiptavini á ákveðnu tímabili árið 2019 um að ekki væri hægt að meta hvort þær tryggingar sem félagið hefði milligöngu um samræmdist þörfum þeirra. Var það meðal annars vegar þess að ekki lágu fyrir fullnægjandi upplýsingar um þekkingu og reynslu viðskiptavinanna.

Þá taldi Seðlabankinn einnig að fyrirtækið hefði ekki farið að fyrirmælum 45 viðskiptavina af 158 á tímabilinu um fjárfestingakosti, tapþol og áhættustig fjárfestinga.

Héraðsdómur staðfesti ákvörðun Seðlabankans í dómi sínum og sagði bankann hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína og gætt andmælaréttar stefnanda. Dómurinn túlkaði þó heimild í lögum á aðeins annan hátt en Seðlabankinn og lækkaði sektarupphæðina í 33 milljónir.

Tryggingar og ráðgjöf sættu sig ekki við þessa niðurstöðu og áfrýjuðu málinu til Landsréttar. Segir í dómi Landsréttar að ekki hafi komið fram skýrt í lögum að skylda hvíldi á fyrirtækinu til að veita viðskiptavinum sínum, sem annað hvort veittu ófullnægjandi upplýsingar eða uppfylltu ekki ákveðin skilyrði, skriflega viðvörun. Var fallist á rök fyrirtækisins um að slík viðvörun hafi verið gefin munnlega í viðtölum við viðskiptavinina og var meðal annars vísað í yfirlýsingar viðskiptavina.

Landsréttur taldi hins vegar að Seðlabankanum hefði verið heimilt að leggja stjórnvaldssekt á Tryggingar og ráðgjöf vegna þess að ekki hafi verið farið að fyrirmælum um fjárfestingakosti, tapþol og áhættustig. Var hæfileg upphæð þeirrar sektar metin á 9 milljónir. Þar sem Tryggingar og ráðgjöf höfðu þegar greitt Seðlabankanum 35 milljónir í sekt var bankanum gert að endurgreiða 26 milljónir.

Málefni Novis vöktu fyrr á þessu ári nokkra athygli þar sem Seðlabanki Slóvakíu afturkallaði starfsleyfi fyrirtækisins. Tók ákvörðunin gildi 5. júní og var fyrirtækinu óheimilt í framhaldinu að stofna til nýrra samninga.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK