Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að ekki gerist þörf á því að auka við hlutafé félagsins eins og orðrómur hefur verið uppi um á markaði. Félagið hélt kynningarfund fyrir hluthafa og fjárfesta í gær þar sem farið var yfir lykiltölur í rekstri. Ekki var um hefðbundinn uppgjörsfund að ræða, enda uppgjör þriðja ársfjórðungs ekki tilbúið.
Gengi bréfa í Play hefur lækkað um rúm 32% á liðnum mánuði og um 36% það sem af er ári. Gengi bréfa í félaginu er nú 8,4 kr. á hlut en náði lágmarki í síðustu viku þegar gengið fór niður í 7,8 kr. á hlut.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má rekja litla veltu með bréf í félaginu til þess að búist var við því að ráðast þyrfti í hlutafjárútboð í haust. Svo er þó ekki eftir því sem fram kom á fundinum í gær.
„Það er ekki þörf á auknu hlutafé inn í daglega reksturinn, enda er tekjugrunnur félagsins orðinn sterkur og fjárstreymi í jafnvægi,“ segir Birgir í samtali við Morgunblaðið, spurður um stöðu félagsins.
„Við vildum þó halda þennan fund, nú þegar sumar er á enda, því við teljum rétt að veita eins mikið af upplýsingum og við getum þó svo að uppgjör þriðja ársfjórðungs hafi ekki verið birt. Það er heldur ekki hægt að neita því að við höfum tekið eftir ólíkum sögusögnum sem við vildum svara hreint út og útskýra stöðuna fyrir fjárfestum.“