Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur gengið til samstarfs við lyfjafyrirtækið Kashiv Biosciences LLC um þróun og markaðssetningu á AVT23, sem er fyrirhuguð líftæknilyfjahliðstæða við Xolair (omalizumab).
Klínísk rannsókn á AVT23 í sjúklingum stendur nú yfir.
Að því er segir í tilkynningu nær samningur félaganna til 27 ríkja Evrópusambandsins, Bretlands, Ástralíu, Kanada og Nýja-Sjálands. Alvotech fær einkarétt til markaðssetningar AVT23, sem verður þróað og framleitt af Kashiv. Kashiv á rétt á fyrirframgreiðslu, áfangagreiðslum og hagnaðartengdum greiðslum.
„Það er mikil ánægja að ganga til þessa samstarfs um þróun og markaðssetningu omalizumab. Alvotech hefur byggt upp afburða þekkingu og aðstöðu, en eins og þessi samningur sýnir getum við kosið að sækja aukna markaðshlutdeild með því að þróa og framleiða lyf að öllu leyti innanhúss eða í samstarfi við aðra. Í þessu verkefni nýtum við reynslu Alvotech af því að tryggja markaðsaðgengi og samninga við öfluga söluaðila á öllum helstu mörkuðum,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, í tilkynningunni.