Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH), í samstarfi við hlaðvarpsþáttinn Þjóðmál, stendur fyrir hádegisfundi á morgun, 4. október, sem ber yfirskriftina Er fasteignamarkaðurinn kominn út í stýrivaxtahorn?.
Á fundinum verður rætt um stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands, sem verður birt fyrr um morguninn, og hvaða áhrif stefna Seðlabankans hefur á fasteignamarkaðinn og efnahaginn.
Gestir fundarins eru þau Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Arion Banka, og Sigríður Margrét Oddsdóttir, sem tók nýlega við stöðu framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins. Gísli Freyr Valdórsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og stjórnandi Þjóðmála, mun stýra umræðum.
Í tilkynningu frá FVH kemur fram að Seðlabanki Íslands hafi hækkað vexti 14 sinnum frá því í maí 2021 og að helstu greiningaraðilar geri ráð fyrir því að 15. hækkunin muni eiga sér stað þegar Seðlabankinn tilkynnir ákvörðun sína í fyrramálið.
Á fundinum verður því velt upp hvort að stýrivextir hafi raunverulega skilað þeim árangri sem þeim er ætlað og rætt hvernig vaxtahækkanir hafa haft áhrif á hagkerfið og þá sérstaklega fasteignamarkaðinn. Þá verður gerð tilraun til að spá í framtíðina, hvort stjórnvöld geti haft áhrif á fasteignamarkaðinn án þess að ýta undir verðbólgu, hvort vænta megi lækkunar vaxta í bráð og undir hvaða kringumstæðum hægt verður að lækka aftur stýrivexti hér á landi.
Fundurinn verður haldinn á Nauthól og hefst klukkan 12:00. Hægt er að skrá sig á fundinn HÉR.