Verðmeta sandalafyrirtæki á 1.300 milljarða

Stefnt er að skráningu Birkenstock í þessum mánuði, en meðal …
Stefnt er að skráningu Birkenstock í þessum mánuði, en meðal annars er horft til dagsetningarinnar 11. október. AFP/John MacDougall

Þýska sandalafyrirtækið Birkenstock stefnir á skráningu á markað í Bandaríkjunum síðar í þessum mánuði. Fyrirtækið, sem var fyrst stofnað árið 1774, hefur ákveðið að bjóða hluti í fyrirtækinu á genginu 44 til 49 dollarar og að skráningin muni skila allt að 1,58 milljörðum dala, eða sem nemur 220 milljörðum íslenskra króna.

Með þessu gengi er virði fyrirtækisins metið á allt að 9,2 milljarða dala, eða tæplega 1.300 milljarða króna.

Skór fyrirtækisins hafa um langt skeið verið staðalbúnaður skrifstofumannsins og lengi vel hafa þeir þótt frekar óspennandi í tískuheiminum. Það hefur þó breyst á síðustu tveimur til þremur áratugum og nú síðast í stórmyndinni Barbie þar sem skórnir voru táknmynd raunveruleikans.

Sögu Birkenstock má rekja til ársins 1774, eða tveimur árum …
Sögu Birkenstock má rekja til ársins 1774, eða tveimur árum áður en Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði sínu. Fyrirtækið á að baki mikla þróunarsögu, m.a. fyrstu sólana sem mótuðu sig að fæti notandans. AFP/Alain Jocard

Fyrirtækið hefur lengst um verið rekið sem fjölskyldufyrirtæki, en það var Konrad Birkenstock sem árið 1897 hannaði fyrstu sólana sem mótuðu sig að fæti notandans. Árið 2021 seldi Birkenstock fjölskyldan meirihluta eign sína í fyrirtækinu til fjárfestingafélagsins L. Catterton og fjölskyldufjárfestingafélags tískurisans Bernard Arnault.

Vinsælir meðal hippa

Sem fyrr segir voru sandalar fyrirtækisins um langa tíð í raun andstæðan við tísku og þóttu dæmi um þægindi og notagildi umfram útlit. Urðu þeir meðal annars vinsælir meðal hippa á sjöunda áratugnum. Það var hins vegar á tíunda áratugnum sem þeir skutust óvænt fram í sviðsljósið þegar ofurfyrirsætan Kate Moss notaði þá. Hafa síðan þá nokkur tískuhús útfært hina hefðbundnu Birkenstock-skó eftir sínu höfði og jafnvel sýnt þá á tískusýningum. Þá mætti Hollywood-stjarnan Frances McDormand á Óskarsverðlaunahátíðina 2019 í Birkenstock-skóm.

Sala fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum þessa árs nemur 1,17 milljörðum dala, en það er 21% aukning frá sama tíma árið áður. Hagnaður fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins var 129 milljón dalir.

Birkenstock hefur lengi stært sig af framleiðslu sinni í Þýskalandi og að hafa ekki flutt hana til landa þar sem framleiðslukostnaður er jafnan lægri. Er í dag 95% af framleiðslu fyrirtækisins í Þýskalandi, en höfuðstöðvar þess eru í Linz am Rhein í vesturhluta landsins. Fyrirtækið er með nokkrar verksmiðjur í Þýskalandi og um 6.200 starfsmenn á heimsvísu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka