Fjölmenni var við opnun nýrrar stórverslunar Húsasmiðjunnar á Selfossi í gær. Húsnæðið hýsir einnig Blómaval og Ískraft.
Verslunin er í nýju verslunar- og þjónustuhúsnæði Húsasmiðjunnar við Larsenstræti í austurhluta bæjarins. Starfsemin var áður í húsnæði sem komið var til ára sinna en nýja húsnæði uppfyllir helstu kröfur nútímans varðandi hagkvæmni og orkunýtingu ásamt því að vera sérsniðið fyrir starfsemi Húsasmiðjunnar, Blómavals og rafiðnaðarverslunarinnar Ískrafts.
Nýja húsnæðið er tæpir 5.200 fermetrar og lóðin 17.4000 fermetrar.THG arkitektar teiknuðu húsið en innra skipulag verslunarinnar var unnið í samvinnu við breska hönnunarfyrirtækið MWorldWide.
„Það hefur verið mikil gróska og uppbygging á Selfossi og í nágrenni undanfarin ár og við höfum tekið virkan þátt með okkar frábæra fólki á Selfossi. Með nýrri verslunar- og þjónustumiðstöð getum við enn betur þjónustað stærra samfélag og bjóðum upp á enn meira vöruúrval og öflugri þjónustu,” er haft eftir Árna Stefánssyni, forstjóra Húsasmiðjunnar, í tilkynningu.
Auk nýrra þjónustuþátta og meira vöruúrvals er leitast við að skerpa á upplifun viðskiptavina með stafrænni miðlun og sjónrænni upplifun.
„Jákvæð upplifun viðskiptavina og gott vinnuumhverfi starfsfólks er eitt lykilatriða nútíma verslunarrekstri. Það er mikil hægðarauki að verslun okkar, timbursala ásamt rafiðnaðarverslun Ískraft séu öll undir sama þaki og innangengt á milli. Hönnun hússins tekur jafnframt mið af nýjustu umhverfiskröfum, með tilliti til orkunotkunar, einangrunar, loftræstingar og lágmörkunar sóunar í rekstri.” segir Árni.
Í versluninni er stórbætt úrval af verkfærum og timbursalan stór og hægt að stafla beint í bíla. Þá hefur verið sett upp gott sýningarrými fyrir heimilistæki, gólfefni og hreinlætistæki. Blómaval opnar glæsilega verslun með fallegar vörur fyrir heimilið, ræktunarvöru, pottaplöntur og auðvitað fersk afskorin blóm alla daga.
Að auki opnar Ískraft nýtt og stærra útibú, en fyrirtækið sérhæfir sig í vörum til rafverktaka, iðn- og orkufyrirtækja og hefur verið í miklum vexti undanfarin ár.