„Þjóð sem gleymir sögu sinni glatar sjálfri sér. Sá maður sem man ekki uppruna sinn er aðeins hálfur maður.“
Svona hóf Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, ræðu sína við opnun Iðnþingsins 2024 og vitnaði þar með í orð Gylfa Þ. Gíslasonar.
Iðnþingið er haldið í Silfurbergi í Hörpu á í dag á milli 14.00-16.00 og ber yfirskriftina „Hugmyndalandið – dýrmætasta auðlind framtíðar.“
Árni sagði mikilvægt að varðveita sögu iðnaðar á Íslandi og þeirra sem lögðu grundvöll að þeim lífsgæðum sem Íslendingar lifa við í dag. Mikilvægt sé að tryggja áframhaldandi góð lífskjör.
Í ár eru 30 ár liðin frá stofnun SI og fór Árni aðeins yfir hvað hefur gerst í íslenskum iðnaði frá þeim tíma.
„Ef einhver skyldi spyrja hvort við höfum gengið til góðs, götuna fram eftir veg, með stofnun Samtaka iðnaðarins, hygg ég að svarið sé augljóst. Nú um stundir skapar iðnaður einn og sér ríflega fjórðung landsframleiðslunnar og um síðustu áramót störfuðu um 50 þúsund undir merkjum fjölbreytts íslensks iðnaðar, eða ríflega einn af hverjum fimm.
Iðnaðurinn skilar um 38% útflutningstekna af fjölbreyttri starfsemi á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar. Þessar tölur undirstrika umfang og mikilvægi iðnaðarins í gangverki íslenska efnahagslífsins. Þessum árangri höfum við náð með sóknarhug og samtakamætti ótal margra sem að málum hafa komið í sögu samtakanna og sögu frumkvöðla og eldhuga í íslenskum iðnaði,“ sagði hann og bætti því að verkefninu væri hvergi nærri lokið.
Árni rakti þær mörgu áskoranir sem steðja að Íslandi næstu árin og sagði iðnaðinn geta mætt þeim áskorunum.
„Og hver er þá lykillinn að því að framtíðin verði farsæl fyrir íslenskan iðnað og samfélagið allt? Lausnarorðin eru: íslenskt hugvit, íslenskt verkvit, íslenskar hugmyndir, sóknarhugur og samtakamáttur. Hugmyndirnar okkar og verkvitið hafa alltaf verið mikilvægustu verkfærin í kistunni. Og aldrei mikilvægari en núna,“ sagði hann og bætti við:
„En til þess að við getum virkjað og eflt þessa krafta sem búa innra með okkur enn frekar þurfum við að þora að hugsa stórt; við þurfum orku, við þurfum starfsumhverfi og regluverk sem hvetur í stað þess að letja og tefja; við þurfum sterka innviði landið um kring, við þurfum fjárfestingaumhverfi sem trúir á íslenskt atvinnulíf og laðar einnig til sín erlenda fjárfestingu; og ekki síst þurfum við menntakerfi sem horfir fram á veginn, skilur framtíðina og gerir ungu fólki kleift að blómstra, byggt á hæfileikum hvers og eins.“