ChatGPT verður innbyggt í iPhone-síma

Tim Cook, forstjóri Apple á kynningunni.
Tim Cook, forstjóri Apple á kynningunni. AFP

Tim Cook, forstjóri Apple, frumsýndi á mánudag glænýja útfærslu á hugbúnaði fyrirtækisins, en með henni verður gervigreindarforritið ChatGPT, sem er í eigu OpenAI, grætt inn í stýrikerfi á öllum nýjum Apple vörum, þar á meðal í talgervilinn Siri.

Uppfærslan ber heitið Apple Intelligence en ekki er um sérstaka þjónustu eða app að ræða.

Gervigreindin verður þess í stað innbyggð í mörg þau verkfæri sem nú þegar er að finna í iPhone-símum og Mac-tölvum, en hún á þannig að gera notendum kleift að stjórna tækjum sínum á einfaldari og straumlínulagaðri hátt.

Hér má sjá dæmi um persónumiðað emoji-tákn.
Hér má sjá dæmi um persónumiðað emoji-tákn. Ljósmynd/Apple

Innbyggður einkaþjónn í símann

Einnig má segja að talgervillinn Siri verði að raunverulegum einkaþjóni, en með ígræðslu ChatGPT á hún að geta svarað tölvupóstum, skipulagt fundi og forgangsraðað upplýsingum út frá notandanum.

Notendur fá einnig aukið frelsi til þess að gera tæki sín persónumiðaðri, en þeir fá til að mynda frelsi til að skapa sín eigin emoji-tákn með því að blanda saman alls kyns myndum og öðrum emoji-táknum. 

Uppfærslan verður aðgengileg innan tíðar, en haft er eftir Tim Cook að með þessu nái vörur fyrirtækisins nýjum hæðum. Apple hefur hingað til dregist aftur úr öðrum fyrirtæjum s.s. Microsoft í að samþætta gervigreind við aðrar vörur sínar, en nýju uppfærslunni er ætlað að róa örvæntingarfulla hluthafa tæknirisans.  

Verðmætasta fyrirtæki í heimi

Markaðir brugðust í fyrstu illa við tilkynningunni, en gengi hlutabréfa í fyrirtækinu rauk svo upp um nærri 11 prósentustig, og endurheimti Apple þar með titil sinn sem verðmætasta fyrirtæki veraldar, af Nvidia. 

Sumir brugðust þó illa við tilkynningunni, en milljarðamæringurinn og tæknifrumkvöðulinn Elon Musk, lýsti því yfir á miðlinum X að Apple hefði enga hugmynd um hvað það væri að gera og Apple væri í raun að gefa OpenAI öll gögn notenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK