Dropp kaupir ráðandi hlut í Górillu

Frá vinstri: Daníel Andri Pétursson meðeigandi Górillu vöruhúss, Egill Fannar …
Frá vinstri: Daníel Andri Pétursson meðeigandi Górillu vöruhúss, Egill Fannar Halldórsson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Górillu vöruhúss og Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp. Ljósmynd/Birgir Ísleifur

Dropp hefur gengið frá kaupum á 75 prósenta hlut í Górillu vöruhúsi, sem sérhæfir sig í vöruhýsingu, afhendingu og dreifingu á vörum fyrir netverslanir og heildsölur. Sameinað fyrirtæki mun þjónusta yfir 700 viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði og bjóða upp á heildstæða lausn fyrir hýsingu og dreifingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dropp.

Í tilkynningunni segir að Dropp hafi byrjað að afhenda vörur fyrir netverslanir árið 2019 og sé í dag með 105 afhendingarstaði um allt land. Þá bjóði fyrirtækið einnig upp á heimsendingar á stórhöfuðborgarsvæðinu.

Dropp hefur gengið frá kaupum á 75 prósenta hlut í …
Dropp hefur gengið frá kaupum á 75 prósenta hlut í Górillu. Ljósmynd/Birgir Ísleifur

Afhendingartími muni styttast

Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp, segir að kaupin á Górillu, sem rekur stórt vöruhús á Korputorgi, séu til þess fallin að stytta afhendingartíma enn frekar og gera netverslunum kleift að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu með lágmarkstilkostnaði.

„Síðustu fjögur ár höfum við hjá Dropp einbeitt okkur að því að afhenda vörur fyrir netverslanir hratt og örugglega. Þegar viðskiptavinur leggur inn pöntun fyrir vörum sem eru hýstar hjá Górillu eru þær komnar til okkar fyrir hádegi næsta virka dag. Tíminn frá pöntun til afhendingar er því stuttur og það sem meira er: hann er alltaf sá sami hvort sem um mikið eða lítið magn sendinga er að ræða.

Þetta samspil kveikti áhugann hjá okkur og við höfum séð fjölmargar netverslanir blómstra sem nýta sér Górillu. Við höfum metnað til að byggja ofan á þann árangur sem skilaði okkur hæstu einkunn allra fyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni 2023 og Górilla smellpassar við þá vegferð,” er haft eftir Hrólfi Andra í tilkynningunni.

Þá kemur fram að fyrst um sinn verði félögin rekin áfram hvort í sínu lagi en þau sjái veruleg samlegðaráhrif af því að samþætta reksturinn á næstu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK