Grænlensk stjórnvöld hafa samþykkt umhverfis- og samfélagsmat fyrir Nalunaq-gullnámuna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá námufyrirtækinu Amaroq Minerals sem birtist fyrr í dag.
Tilgangur matanna var að leggja mat á umhverfisáhrif og félagsleg áhrif sem Nalunaq-verkefnið hefði í för með sér. Fyrirtækið hefur unnið að því að undirbúa frekari gullvinnslu í Nalunaq-gullnámunni.
„Ég get ekki undirstrikað nægilega vel mikilvægi þess að ná þessum áfanga sem við höfum stefnt að síðustu fjögur ár. Ferlið hefur verið langt og strangt, þar á meðal ótal vinnustundir við gerð tæknilegra skýrslna til stuðnings verkefninu,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni, forstjóra Amaroq, í tilkynningunni.
Blaðamenn ViðskiptaMoggans heimsóttu Nalunaq-gullnámuna á síðasta ári með Eldi Ólafssyni.
„Við erum komin á þann stað núna að við erum bæði að bora fyrir meira gulli og erum tilbúin að hefja vinnslu á næsta ári,“ sagði Eldur í viðtali við ViðskiptaMoggann á síðasta ári.