Nanna Kristín Tryggvadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Bestseller á Íslandi. Bestseller á Íslandi rekur meðal annars verslanir undir merkjum Selected, Vero Moda, Jack & Jones, Vila, barnafataverslunina Name It og íþróttaverslunina Jóa Útherja.
Nanna Kristín hefur undanfarið starfað sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og áður fjármálaráðherra, en fyrir það var hún framkvæmdastjóri Byggingarfélagsins Húsheildar Hyrnu. Þar áður starfaði hún í Landsbankanum, lengst af sem aðstoðarmaður bankastjóra. Hún er jafnframt formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og ein af forsvarskonum góðgerðarfélagsins Konur eru konum bestar.
Hún er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Duke háskóla í Norður-Karólínu 2011, ásamt því að vera með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, starfandi stjórnarformaður félagsins, segir í fréttatilkynningu að ráðning Nönnu Krístínar sé partur af því umbreytingarferli sem félagið er í.
„Við höfum fjárfest miklum tíma og fjármunum í endurskoðun á innri ferlum, styrkingu innviða, uppfærslu á upplýsingatæknikerfum, mótun og framkvæmd markaðsmála og sjálfvirknivæðingu. Framtíð verslunar á Íslandi verður blanda af sjálfsafgreiðslu á netinu og rekstri búða. Við sjáum öran vöxt í viðskiptum á netinu og ætlum okkar að taka virkan þátt í þeirri samkeppni,“ segir hún.