Sænska tæknifyrirtækið Humly hefur valið tölvufyrirtækið OK sem samstarfsaðila á Íslandi fyrir Humly bókunarlausnir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá OK.
Humly er alþjóðlegt fyrirtæki sem veitir lausnir og þjónustu um allan heim í gegnum staðbundna samstarfsaðila. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á nokkrum stöðum víðs vegar um Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku, að því er segir í tilkynningunni.
Humly hefur þróað bókunar- og móttökulausnir fyrir vinnustaði í rúman einn og hálfan áratug. Safnið þeirra samanstendur af lausnum til að bóka fundarherbergi, borð á vinnustöðum, næðisrými, gólfplön, bókun á bifreiðum og bílastæðum á vinnustað.
„Starfsfólk hefur í dag ýmsar leiðir til þess að sinna daglegum verkefnum. Sumir vinna heima, aðrir eru í blandaðri vinnu og enn aðrir eru á skrifstofunni. Þessi blandaða vinna hefur skapað forsendur fyrir opið sætaskipulag eða verkefnamiðaða vinnuaðstöðu (e. Freeseating) í fyrirtækjum,“ er haft eftir Kristni Helgasyni, sölustjóra hjá OK, í tilkynningunni.