Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur selt Applicon, sænskt dótturfélag sitt, til norska tæknifyrirtækisins Pearl Group, stærsta samstarfsaðila þýska hugbúnaðarrisans SAP á Norðurlöndum. Kaupverðið er trúnaðarmál. Applicon hefur síðustu misseri sérhæft sig í SAP-bankalausnum á sænska markaðnum.
Jafnframt verður SAP viðskipta- og bankalausnum Origo á Íslandi komið fyrir í nýju íslensku félagi, Pearl Iceland ehf., sem verður alfarið í eigu Pearl Group. 400 manns vinna hjá Pearl Group. Félagið er með starfsemi í sjö löndum og þjónustar mörg af helstu stórfyrirtækjum Norðurlanda. Breytingarnar taka gildi 1. október.
Ari Daníelsson, forstjóri Origo, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að íslenskir viðskiptavinir sem notað hafa SAP- og bankalausnir Origo muni ekki finna fyrir neinum breytingum. Ingimar Bjarnason, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna Origo, muni verða framkvæmdastjóri Pearl Iceland og taka sæti í stjórnendateymi norska móðurfélagsins.
60 starfsmenn Origo og Applicon munu starfa hjá Pearl Group eftir breytingarnar, þar af 34 á Íslandi undir merkjum Pearl Iceland.
„Með þessu er að koma til landsins nýr aðili í þjónustu og upplýsingatækni til að sinna mörgum af flóknustu og öflugustu fyrirtækjum landsins. Pearl Group sér líka mikil tækifæri á sínum markaðssvæðum í að selja þær bankalausnir sem Origo hefur þróað í gegnum árin,“ segir Ari.
Lausnirnar sem um ræðir eru að m.a. afgreiðslukerfi gjaldkera, gjaldeyrisviðskipti og netbanki einstaklinga og fyrirtækja.
„Við höfum hingað til verið að þjónusta fjóra íslenska banka og tvo sænska og vaxtartækifærin mjög takmörkuð. Með nýjum eigenda aukast þau til muna.“
Um ástæðu sölunnar segir Ari að hún sé hluti af því umbreytingarferli sem verið hefur í gangi sl. 3-4 ár.
„Við höfum verið að skilgreina hvað felst í kjarnastarfsemi Origo, auka sjálfstæði teyma og skerpa fókus. Þannig viljum við hámarka árangur viðskiptavina og virði hluthafa. Origo á sér langa sögu og er samsett úr mörgum fyrirtækjum sem sum hver geta náð meiri árangri sem sjálfstæðar einingar.
Þar má nefna öryggisfyrirtækið Syndis, heilbrigðistæknifyrirtækið Helix og ferðatæknifyrirtækið Godo sem við eigum nú 22% hlut í, eftir að hafa selt ferðalausnir Origo þangað inn. Þá höfum við aðskilið heildsölu- og smásölufyrirtækið Origo lausnir sem sér um sölu á vélbúnaði eins og Lenovo, Sony, Canon og Bose. Það á sér nú sitt eigið sjálfstæða líf,“ útskýrir Ari.
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.