Íslensk fjárfesting ehf. hagnaðist um 499 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við rúmlega 1,7 milljarða hagnað árið á undan. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2023.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri fjárfestingu.
Velta samstæðunnar var 37,3 milljarðar, sem er 11,7% aukning frá 2022, og eigið fé félagsins var 4.790 milljónir í lok árs samanborið við 4.506 milljónir árið áður.
Þá segir að Íslensk fjárfesting fjárfesti á fjórum sviðum sem eru ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, fasteignum og í útivist og hreyfingu.
Lykileignir á sviði ferðaþjónustu eru KILROY, sem starfar í átta löndum, með skrifstofur á 20 stöðum í Evrópu og starfar þar undir fjórum vörumerkjum, og Flóra hotels ehf., sem m.a. rekur Reykjavík Residence Hótel, ODDSSON hótel, Tower Suites og Port 9 vínbar.
Á sviði fasteigna er félagið eigandi Stafa ehf., fasteignafélags samstæðunnar, sem átti í árslok fasteignasafn að virði um 10 milljarða kr. sem mestmegnis tengist hótelrekstri. Auk þess er helmingur í fasteignaþróunarfélaginu Íslenskum fasteignum í eigu Íslenskrar fjárfestingar.
Á sviði heilbrigðisþjónustu er félagið eigandi Sóltúns heilbrigðisþjónustu sem rekur meðal annars tvö hjúkrunarheimili og á sviði útivistar og hreyfingu eru reknar bæði verslanir Útilífs og The North Face á Íslandi. Hjá fyrirtækjum í meirihlutaeigu Íslenskrar fjárfestingar starfa rúmlega eitt þúsund starfsmenn.
Íslensk fjárfesting er fjárfestingarfélag í jafnri eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.