Brian Niccol, forstjóri skyndibitakeðjunnar Chipotle, verður næsti forstjóri kaffihúsakeðjunnar Starbucks.
Tekur hann við starfinu af Laxman Narasimhan sem settist í forstjórastólinn fyrir um ári. Narasimhan lætur einnig af störfum sem stjórnarmaður félagsins.
Niccol hefur verið forstjóri Chipotle síðan árið 2018 og segir Starbucks að hann hafi náð fram vexti og stuðlað að verðmætasköpun hjá Chipotle. Tekjur hefðu nær tvöfaldast og hagnaður aukist í hans tíð sem forstjóri.
Narasimhan lætur tafarlaust af starfi sem forstjóri og tekur Rachel Ruggeri fjármálastjóri Starbucks við forstjórastöðunni tímabundið en Niccol hefur störf 9. september.
Fráfarandi forstjórinn sagði frá því þegar hann tók við stöðunni að hann ætlaði að taka vaktir á kaffihúsum fyrirtækisins einu sinni í mánuði.