Landeldisfyrirtækið First Water hefur ráðið Ómar Grétarsson til að stýra sölu- og markaðsmálum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Ómar er með BS-gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík.
Fram kemur í tilkynningunni að hann hafi víðtæka reynslu af laxeldi en ferill Ómars í geiranum nær aftur til ársins 2013 þegar hann hóf störf sem sölustjóri hjá Fjarðalaxi.
Eftir sameiningu fyrirtækjanna Fjarðalax og Arnarlax undir merkjum þess síðarnefnda árið 2016 starfaði Ómar sem sölustjóri þar til á þessu ári þegar hann var ráðinn til First Water.
Eldisstöð First Water er í Þorlákshöfn en uppbygging á svæðinu skiptist í sex áfanga og eru áætluð verklok framkvæmda árið 2029. Í sumar voru um 200 einstaklingar að störfum hjá fyrirtækinu og í árslok er stefnt að því að um 1.500 tonn af laxi hafi verið framleidd.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, segir í tilkynningunni að Ómar komi inn á hárréttum tíma til að styðja við uppbyggingu fyrirtækisins og að First Water ætli sér stóra hluti.