Vinnumarkaðstölur í Bandaríkjunum voru birtar í á föstudaginn síðastliðinn. Andri Már Rúnarsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, segir að ljóst sé að bandaríski markaðurinn sé að hægja á sér en sé þó ekki í neinu hengiflugi.
„Fjölgun starfa er enn jákvæð og atvinnuleysi virðist ekki vera að fara úr böndunum, eins og margir höfðu spáð,“ segir Andri.
Breyting á fjölda starfandi í Bandaríkjunum var undir væntingum þar sem aukningin var 142 þúsund störf en markaðurinn hafði gert ráð fyrir að fjölgunin yrði 165 þúsund. Atvinnuleysi lækkaði í 4,2%, í línu við væntingar, en atvinnuleysi hækkaði óvænt í síðasta mánuði úr 4,1% í 4,3% þar sem atvinnutölur voru virkilega veikar.
Andri Már segir að stóra fréttin í síðasta mánuði hafi verið að einkageirinn skapaði 97 þúsund störf en sögulega hefur sú fjölgun þurft að vera í kringum 100 þúsund til að viðhalda fólksfjölgun í landinu.
„Þetta er eitthvað sem Jerome Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna hefur ítrekað nefnt og því urðu viðbrögð á skuldabréfamarkaði mikil við síðustu birtingu,“ segir Andri Már.
Í gær, samhliða birtingu ágústmánaðar, voru tölur síðustu tveggja mánaða (júní, júlí) uppfærðar niður á við um 86 þúsund.
Andri segir því ljóst að ískaldar atvinnutölur í síðasta mánuði hafi í raun verið enn veikari en áður hafði verið birt.
„Þetta kemur í kjölfarið af árlegri uppfærslu atvinnutalna fyrir tímabilið apríl 2023 – mars 2024 sem birtist fyrir um tveimur vikum, þar sem fjölgun starfa var færð niður um 818 þúsund,“ segir Andri Már.
Hann bætir við að hlutverk Seðlabanka Bandaríkjanna sé tvíþætt, annarsvegar verðstöðugleiki við 2% verðbólgumarkmið og hins vegar að tryggja hámarks atvinnustig. Það er misjafnt eftir því hvor þáttur hins tvíþætta hlutverks vigtar meira. Hann segir jafnframt að samkvæmt ummælum Seðlabankastjóra Bandaríkjanna síðustu vikur virðist vigtin hafa færst mikið frá verðbólguþættinum yfir á vinnumarkaðinn og því viðbúið að allar hagtölur sem við koma vinnumarkaðinum hafa mikið að segja um vænt vaxtastig.
„Hvort sem ég tel fjölgun starfandi og/eða atvinnuleysi góðan mælikvarða á erfiðleika í hagkerfinu þá virðist peningastefnunefnd í Bandaríkjunum upptekin af þessum tölum og því ræðst verðlagning á skuldabréfamarkaði mikið út frá því hvernig vinnumarkaðurinn þróast þessi misserin,“ segir Andri Már.
Markaðurinn væntir þess að vextir verði teknir niður um rúmlega 200 punkta næsta árið og verði þá í kringum 3%.
Andri segir að markaðurinn hafi brugðist mjög vel við vinnumarkaðstölunum síðustu misserin og veltir upp þeirri spurningu hvort hann sé búinn að taka vaxtavæntingarnar of langt.
„Ég tel að miðað við ganginn í bandaríska hagkerfinu, sem keyrir nú á um 2% hagvexti og á meðan atvinnuleysi hefur ekki farið úr böndunum, sé markaðurinn aðeins að prjóna yfir sig. Miðað við verðbólgu, vinnumarkaðinn og hagvöxt er ekki að sjá að við séum óralangt frá jafnvægisvöxtum og ekki ólíklegt að langtímavextir eins og peningastefnunefnd metur þá verði metnir hærri við næstu vaxtaákvörðun. Það ásamt öðrum þáttum myndi þá líklega ýta vaxtavæntingum upp á við og hafa áhrif til hækkunar á lengri vöxtum,“ segir Andri.
Hann bætir við að vegna þess að bandaríska ríkið sé rekið á miklum halla fari framboð á skuldabréfum aukandi.
„Því til viðbótar eru fyrirhugaðar aðgerðir Trump í tollamálum frekar til þess fallnar að auka verðbólgu og á sama tíma er Seðlabanki Bandaríkjanna að draga úr magnbundinni íhlutun á skuldabréfum úti (e. quantitative tightening) sem eykur pressu á lengri vexti,” segir Andri Már.
Skuldabréfamarkaðurinn úti brást vel við tíðindum gærdagsins en samkvæmt verðlagningu á mörkuðum erlendis er markaðurinn að gera ráð ákvörðun í Bandaríkjunum þann 18. september.
Andri Már segir að stóra spurningin sé hvort lækkunin verði 25 punktar eða 50 punktar.
„Markaðurinn verðleggur líkurnar milli þess um 50% á móti 50%.“