Átta milljarða fjármögnunarlotu lokað

Alexander Helling, forstjóri jarðhitafyrirtækisins Baseload Capital.
Alexander Helling, forstjóri jarðhitafyrirtækisins Baseload Capital.

Jarðhitafyrirtækið Baseload Capital lauk nýverið 53 milljóna evra B-fjármögnunarlotu, sem samsvarar rúmum 8 milljörðum íslenskra króna, með fjárfestum úr orku- og innviðageiranum.

Dótturfyrirtæki Baseload Capital, Baseload Power á Íslandi, vinnur að uppbyggingu smávirkjana hér á landi sem nýta lághita til rafmagns- og varmaframleiðslu og er fjármögnunin liður í þeirri þróun. Fyrirtækið á einnig dótturfélög í Bandaríkjunum, Japan og Taívan.

Lykilfjárfestirinn í þessari fjármögnunarlotu er innviðasjóðurinn ENGF, sem er á bak við Ingka Investments, fjárfestingarsjóð Ingka Group, stærsta IKEA-smásölurisans. Aðrir fjárfestar í þessari lotu eru Baker Hughes, Nefco, Breakthrough Energy Ventures og Gullspang Invest.

Jarðvarminn vannýttur á heimsvísu

Alexander Helling, forstjóri Baseload Capital, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið sjái mikil tækifæri í nýtingu á jarðhita á heimsvísu og að stjórnvöld ættu að gefa jarðhitanum þá athygli sem hann eigi skilið. Baseload Capital er þróunar- og fjárfestingarfélag í nýtingu jarðhita sem stofnað var fyrir sjö árum.

Alexander lýsir því að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað eftir ferð til Íslands þar sem hann kynntist tækifærunum sem felast í að nýta jarðhitann. Hann frétti sem dæmi að á Flúðum á Suðurlandi væri hitaveituhola sem væri vannýtt því hún var of heit fyrir hitaveituna. Á þessum tíma starfaði Alexander hjá fyrirtækinu Climeon sem sérhæfir sig í svokölluðum tvívökvavélum, eða ORC (organic Rankine cycle) lausnum, fyrir skipaflota.

Búnaður Climeon hentaði vel fyrir hitastig holunnar á Flúðum til þess að framleiða rafmagn og kæla þannig vatnið niður í ákjósanlegt hitastig fyrir hitaveituna. Skortur var þó á fjármagni til að þróa verkefnið áfram. Í kjölfarið var Baseload stofnað.

„Við komum auga á tækifæri, ekki aðeins á Íslandi heldur á heimsvísu, til að byggja virkjanir með vannýttri tækni á sviði jarðhita,“ segir Alexander.

Hann segir að jarðhitinn sé verulega vannýttur á heimsvísu en orkugjafar á borð við vind og sól séu meira nýttir.

„Það liggja tækifæri í að nýta jarðhitann meira og margir átta sig ekki á því hversu mikla möguleika frekari nýting býður upp á,“ segir Alexander.

Megináhersla Baseload Capital er að auka nýtingu jarðhitans á heimsvísu. Alexander lýsir því að fyrirtækið vinni náið með fjárfestum sínum og nýti ekki aðeins fjármagn þeirra heldur einnig þekkingu.

Meðal þeirra sem styðja við stækkun Baseload eru sterkir fjárfestar eins og Breakthrough Energy Ventures, undir forystu Bills Gates, og Baker Hughes, leiðandi fyrirtæki á sviði orkutækni, Chevron, sem hefur reynslu af nýtingu jarðvarma, og ENGF.

Baseload Power á Íslandi rekur nú þegar tvær litlar jarðhitavirkjanir og vinnur að þróun þriggja annarra jarðhitaverkefna hér á landi. Fyrirtækið vinnur náið með innlendum samstarfsaðilum, sveitarfélögum, landeigendum og hitaveitum.

„Við byggjum ekki bara virkjanir; við einbeitum okkur að öllu vistkerfinu, þ.e. samþættingu hitaveitu, kælingar og jafnvel steinefnavinnslu,“ segir Alexander.

Áskoranir fram undan

Alexander segir að fjölmargar áskoranir séu fram undan í nýtingu jarðhita á heimsvísu, einkum er varðar stefnu ólíkra stjórnvalda og stjórnun á aðfangakeðju slíkra verkefna, eins og sérfræðiþekkingu og jarðhitaborunum.

„Stjórnvöld þurfa að veita jarðhita þá athygli sem hann á skilið,“ segir Alexander og bætir við að það væri til bóta að gera regluverkið skilvirkara. Hann tiltekur einnig að það sé mikil áskorun að finna hæft starfsfólk á sviði jarðhita.

„Það hefur verið áskorun fyrir fyrirtækið að fá til sín hæft starfsfólk, og því gegnir Ísland þýðingarmiklu hlutverki innan samstæðunnar. Jarðhiti er enn tiltölulega lítil grein á heimsvísu. Baseload hefur það markmið að laða að fólk frá ólíkum sviðum til að knýja fram nýsköpun og vöxt,“ segir Alexander.

Alexander segist fullviss um að aukin notkun jarðhita sé mikilvæg til framtíðar.

„Langtímasýn Baseload Capital er að leggja sitt af mörkum á sviði endurnýjanlegrar orku og koma með lausnir sem gagnast í orkuskiptunum,“ segir Alexander að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK