Digido, sem vill kalla sig vaxtarstofu, hefur hannað lausn sem nýtir gervigreind og hjálpar fyrirtækjum að lesa úr vef- og markaðsupplýsingum sem fengnar eru frá ólíkum gagnastraumum eins og Google Analytics og Google Lighthouse ásamt auglýsingagögnum frá Meta, þ.e. Facebook og Instagram.
Þeir Arnar Gísli Hinriksson, annar stofnandi Digido, og Ómar Þór Ómarsson, framkvæmdastjóri vaxtar hjá Digido, segja í samtali við ViðskiptaMoggann að hugmyndin hafi kviknað í kjölfar samtala og vinnu með viðskiptavinum til að ná fram auknum vexti.
Þeir lýsa því að nær öll fyrirtæki séu að takast á við sambærileg vandamál sem snúi að árangri í gegnum vefsíður og herferðir. Ómar segir að hann hafi unnið sem markaðsstjóri hjá fjártæknifyrirtækinu Meniga í mörg ár. Þar hafi hann fundið fyrir þessu á eigin skinni, áður en hann réð sig til Digido og fór að vinna með Arnari, sem hafði upplifað hið sama.
Fyrirtæki eru í auknum mæli farin að reiða sig á árangur vefsíðunnar og söfnun gagna með tólum eins og Google Analytics ásamt fleirum. Ómar lýsir Google Analytics sem öflugustu orrustuþotu í heimi en hún virki þó ekki sem skyldi ef enginn er að skoða og greina gögnin.
„Við höfum hjálpað mörgum af viðskiptavinum okkar að setja upp lausnina Google Analytics ásamt fleiri mælitækjum fyrir vef- og markaðsmál. Google Analytics er gott tól en margir af okkar viðskiptavinum áttu í vandræðum með að skilja gögnin sem það veitir, fyrir utan hversu gríðarlegt magn gagna þar sé að finna. Þetta er vandamál hjá fjölda fyrirtækja, sem gætu verið að tapa miklum peningum á því að nýta þessi tækifæri ekki vel. Það er ekki nóg að vera bara með flott mælaborð á flatskjá á skrifstofunni.“
Í kjölfarið hafi þeir byrjað að velta fyrir sér öðrum möguleikum og hafa nú þróað lausn sem leysir vandamálið. Lausnin heitir Optise og er stytting á enska orðinu „optimize“, eða bestun, og í grunninn snýst hugbúnaðurinn um að setja fram gögn og markaðsupplýsingar á skýran og skilmerkilegan hátt.
„Við erum að byggja upp hugbúnaðarlausn frá grunni sem sækir vef- og markaðsgögn frá ólíkum tólum og birtir með skipulögðum hætti á mælaborði. Við notum gervigreind á borð við ChatGPT frá OpenAI til að túlka og greina gögnin fyrir notandann, sem við þjálfum upp fyrir þennan tilgang. Þetta gerir okkur kleift að greina gífurlegt magn upplýsinga frá ólíkum tólum og getum við þannig áttað okkur betur á hvað er að gerast á vefnum, til dæmis hvað notendur eru að gera á vefnum ásamt því að átta okkur betur á árangri herferða. Tólið er svo hannað með það í huga að matreiða upplýsingarnar með skýrum og skilmerkilegum hætti en þar kemur gervigreindin að góðum notum. Jafnframt útbýr lausnin verkefni fyrir notendur til að breyta eða bæta á vefnum eða í markaðssetningunni og hjálpar þeim því að hagnýta gögnin,“ segir Arnar.
Lesa má allt viðtalið við þá Arnar og Ómar í ViðskiptaMogganum í dag.