Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa skilið eftir sig mörg verkefni og áskoranir. Eitt af þessum verkefnum er Fasteignafélagið Þórkatla sem Erni Viðari Skúlasyni hagverkfræðingi var falið að stýra.
Hann starfaði áður sem fjárfestingarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og hefur komið víða við. Hann segir að verkefnið sem Þórkatla stýrir sé langt komið og markmiðið sé að Grindavík verði blómlegur bær á ný einn daginn.
Hann hlustar mikið á hlaðvörp en segir að lítill tími hafi gefist undanfarið til þess vegna anna. Hann er með golfkennsluferð á dagskrá í október en hann hefur ásamt konu sinni stundað golf undanfarið, en spilamennskan og færnin í íþróttinni hefur enn ekki náð flugi að hans sögn.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Það eru að verða ákveðin kaflaskil hjá okkur hjá Þórkötlu. Við erum langt komin með að ljúka kaupum á um 900 íbúðum í Grindavík. Nokkrar umsóknir eru í vinnslu og svo eru nokkrir sem enn hafa ekki sótt um, en þetta geta mest orðið um 1.000 eignir sem um ræðir.
Fram undan er svo bæði rekstur og viðhald eignanna og við erum að móta verklag okkar og nálgun við það, þessa dagana. Einn liður í því byggist á samstarfi við fyrrverandi eigendur sem við köllum hollvinasamning, en svo um leið og bærinn verður talinn öruggur og almennt opinn fólki förum við að huga að leigu á tilteknum eignum.
Við nálgumst verkefnið ávallt með það í huga að Grindavík verði aftur blómlegur bær og markmiðið er að selja eignirnar aftur, helst til fyrrverandi eigenda, en annars til annarra. En þetta verkefni er mjög háð þróun og framgangi eldsumbrotanna og því er óvissan áfram mikil.
Persónulega er svo golfkennsluferð til Spánar á dagskránni í október, ég þarf að koma kylfunum upp úr pokanum. Við hjónin höfum haft golfið á dagskránni um nokkurt skeið, en spilamennska og færni ekki náð flugi. Sumrinu var nú miðað við veðuraðstæður bara vel varið í vinnunni, enda verkefnin ærin, en það verður gott að kúpla sig aðeins út.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Að jafnaði reyni ég að ná jafnvægi og slökun með hreyfingu og í vor þegar mesta álagið var þá voru það morgungöngur með strandlengjunni á Seltjarnarnesi með Bogomil Font og Sjóddu bara egg í eyranu. En nú er ég að taka aftur upp þráðinn með Náttúruhlaupum og ætla svo að taka á því í Granda 101 nokkra morgna í viku
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Ég tók nýlega þátt í vinnustofu á vegum Klaks og MIT-háskólans í Boston, sem er í raun undirbúningur þess að verða mentor fyrir sprotafyrirtæki sem ganga í gegnum smiðjur Klaks. Góð yfirferð, fín upprifjun og gott að samræma vinnubrögð. Uppleggið er að gefa af sér góð ráð til frumkvöðla og fyrirtækja framtíðarinnar. Hvernig heldurðu þekkingu þinni við? Ég reyni að mæta reglulega á kynningar, viðburði og ráðstefnur á því sviði sem ég starfa á og undanfarin ár hefur það snúist um uppbyggingu fyrirtækja og sprotasenuna. Svo hlusta ég gjarnan á hlaðvörp frá eldhugum í greininni eða öðrum sem hafa skarað fram úr. Það hefur ekki gefist neinn tími í slíkt undanfarið, en það stendur til bóta.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf og hvers vegna?
Já, það gæti nú alveg komið að því að ég þyrfti að leita á ný mið, enda verkefnið í eðli sínu tímabundið og háð framgangi náttúruaflanna. En það eru í raun tvær kröfur sem ég geri til draumastarfsins; annars vegar að í því felist krefjandi áskorun og hins vegar að vinna með öflugu, metnaðarfullu fólki. Þessi skilyrði eru vissulega bæði uppfyllt í núverandi starfi, svo ég er bara góður í bili.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu og hvers vegna?
Ég er nú bara nokkuð góður af gráðum, en það var bæði gott og gaman að herða aðeins á skrúfunum með meistaragráðu frá HR, fyrir nokkrum árum. Ætli MBAeða MPM-nám yrði ekki fyrir valinu, ef svo bæri undir.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Það er kannski erfitt að benda á tiltekin lög, en ég hefði mjög gjarnan viljað sjá okkur sem samfélag ná meiri árangri í að efla menntakerfið, auka orkuvinnslu og stórauka framboð byggingarlóða. Við þurfum að tala minna og gera meira.