Horfur á hægari hagvexti á næstunni

Verðbólguvæntingar til eins og hálfs árs eru komnar niður í …
Verðbólguvæntingar til eins og hálfs árs eru komnar niður í um 3,2%. Stofnandi Analytica spáir 6% verðbólgu í lok þessa árs. mbl.is/Hari

Horfur eru á hægari hagvexti næstu misseri en að meðaltali undanfarin ár. Þetta kemur fram í nýbirtum hagvísi Analytica. Analytica spáir því að líkur séu á samdrætti á næsta ári.

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi Analytica, segir í samtali við Morgunblaðið að það sem af er ári hafi þróunin verið í takt við væntingar.

„Við höfum metið það svo að á þessu ári væru rúmlega fjórðungslíkur á efnahagssamdrætti, þ.e. minni líkur en meiri, og eitthvað minni líkur á næstu nokkrum árum,“ segir Yngvi og bætir við að þar sem þróun leiðandi hagvísis sé orðin langdregin þýði það að líkur á samdrætti á næsta ári séu eitthvað að aukast en mestar líkur séu á því að hagvöxtur verði hægari en áður var talið.

„Mögulega verður hagvöxturinn á næsta ári innan við 2% en áður töldum við að hann gæti orðið um 2,5%. Á þessu ári á ég von á að hagvöxtur verði lítill sem enginn. Við höfum þó ekki uppfært matið formlega ennþá,“ segir Yngvi.

Verðbólguhorfur komnar í 3,2%

Spurður um verðbólguhorfurnar bendir Yngvi á að verðbólguvæntingar til ca. eins og hálfs árs séu komnar niður í um 3,2% þegar litið er til samanburðar á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðra án leiðréttingar fyrir verðbólguáhættuálagi.

Þetta er lægri tala en þau 3,7% sem markaðurinn verðleggur inn í þróunina til næstu fimm ára. Minni verðbólguvæntingar auka líkur á vaxtalækkun Seðlabankans en óvissan er jafnframt talsverð þar sem um áhrif breytingar á formi skattlagningar er að ræða.

„Ég hef verið svartsýnni á verðbólguþróunina en markaðurinn virðist vera núna. Núna virðist líklegt að verðbólgan geti verið komin undir 6% í árslok og gæti svo snögglækkað í byrjun næsta árs,“ segir Yngvi.

Hann nefnir enn fremur að á þessu ári hafi orðið breyting á útreikningi húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs sem valdið hefur sérstakri óvissu um mælinguna. Það virðist reyndar sem svo að breytingin hafi fremur leitt til lægri verðbólgumælingar en annars hefði orðið. Hann nefnir einnig annan sérstakan óvissuþátt á næsta ári en þar er um að ræða breytingu á skattlagningu á notkun ökutækja.

„Það er ljóst að skuldabréfamarkaðurinn gerir ráð fyrir að þetta leiði til mun lægri verðbólgumælinga í byrjun árs enda hefur ávöxtunarkrafa stuttra verðtryggðra skuldabréfa hækkað,“ segir hann.

Vextir gætu lækkað í lok árs

Yngvi segir að hagvaxtarhorfurnar séu ágætar til lengri tíma.

„Það eru hins vegar nokkrar takmarkanir sem blasa við, s.s. í orkuframleiðslu og hvað varðar ýmsa aðra innviði. Þá gætu snögg umskipti í áhuga erlendra ríkisborgara á að starfa hér flækt hlutina. Þá erum við afar háð efnahagsástandi og horfum í viðskiptalöndunum en þar eru horfurnar tvísýnar, frekar virðist að hægi á,“ segir Yngvi.

Hann telur ekki ólíklegt að Seðlabankinn lækki vexti lítillega á síðasta fjórðungi ársins.

„Þetta veltur hins vegar á þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga. Á þessu ári eru einungis eftir tveir vaxtaákvörðunardagar hjá bankanum, þ.e. 2. október og 20. nóvember. Það virðist ólíklegt að vextir lækki 2. október. Annars er líklegt að vextir lækki á næsta ári. Eins og staðan er núna virðist líklegt að Seðlabankanum takist að ná verðbólgu niður fyrir 4% á næstu misserum og það greiðir leiðina fyrir stýrivaxtalækkanir. Nákvæmlega hver ferill þess verður er talsvert óvisst,“ segir Yngvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK