Nýsköpunarfélagið GreenFish hefur þróað hugbúnað sem byggir á víðfeðmu safni sjólags- og veðurgagna, ásamt gögnum sjávarútvegs sem safnað hefur verið síðustu áratugi. GreenFish nýtir gervigreindarlíkön og vinnslu á ofurtölvum til að gera spá átta daga fram í tímann um staðsetningu afla, magn, gæði og aflasamsetningu á hafkorti.
Stofnendur GreenFish eru þeir Sveinn Sigurður Jóhannesson framkvæmdastjóri, Sigurður Bjartmar Magnússon tæknistjóri og Pétur Már Bernhöft fjármála- og viðskiptaþróunarstjóri.
Við þróun hugbúnaðarins hefur fyrirtækið meðal annars verið í samstarfi við Ísfélagið, sem prófaði búnaðinn við makrílveiðar í sumar.
Mikil nákvæmni líkansins í raunprófunum styrkti trú þeirra um að þeir væru með góða vöru í höndunum, en það breytti því þó ekki að það tók á taugarnar þegar Ísfélagið hóf að prófa að nota líkanið í sumar.
„Þetta var ansi taugatrekkjandi. Við þríeykið, við Pétur og Siggi, sátum heima hjá okkur vitandi það að skip af þeirri stærðargráðu sem uppsjávarfloti Ísfélagsins er væri mögulega að fara eftir leiðbeiningum okkar með áhöfnina sína, það var ekki þægileg tilhugsun,“ segir Sveinn og Sigurður tekur í sama streng.
„EM í fótbolta var í gangi á sama tíma, en mér var alveg sama um það, við sátum bara og vorum að fylgjast með því hvar skipin væru,“ segir Sigurður og Sveinn bætir við:
„...á MarineTraffic að fylgjast með raunferli skipa eins og ekkert væri eðlilegra!“
Það var þeim því mikill léttir að heyra að líkanið hefði reynst Ísfélaginu vel.
„Við höfum mjög oft hitt vel í mark með makrílinn í sumar. Endanleg niðurstaða liggur ekki alveg fyrir, þar sem aflabækurnar eru ekki allar komnar inn, en það bendir allt til þess að niðurstaðan verði mjög jákvæð, þrátt fyrir það að töluvert minni makríl hafi verið að finna kringum Ísland þetta ár,“ segja þeir.
Strákarnir lofa Ísfélagið sérstaklega fyrir stuðninginn í verkefninu.
„Ísfélagið hefur verið okkur ómetanlegt. Það var mjög rausnarlegt af þeim að bjóða litla nýsköpunarfélaginu okkar samstarf. Þeir veittu okkur aðgang að gögnum og við fengum að nýta aðföng þeirra og fleira við prófanir og umbætur.
Það skipti sköpum fyrir framgang verkefnisins að komast í samstarf við fyrirtæki eins og Ísfélagið, ekki síst vegna þess að við leggjum allt kapp á að hanna búnaðinn í takt við þarfir notandans,“ segja þeir.
Eftir því sem þróuninni vindur fram er stefnt að því að útvíkka samstarfið til fleiri útgerða.
„Í prufuumhverfinu takmörkuðum við okkur við eina útgerð, þar sem samvinna okkar er á því stigi mjög náin hvað varðar notendaviðmót, prófanir og annað. Við erum í samtali við nokkur útgerðarfélög varðandi samstarf í framhaldinu og þau hafa tekið vel í þetta.
Það sparar þeim auðvitað mikinn hausverk að fá sjálfvirkni í þessa greiningarvinnu. Með veiðispá átta daga fram í tímann geta menn skipulagt veiðar betur, lækkað kostnað og sparað tíma sem fer í leit að aflanum. Sjómennirnir geta þá vonandi verið aðeins lengur heima hjá sér í stað þess að vera í þessari brælu á leit út og suður,“ segir Sveinn.
Markmið þeirra, öðru fremur, sé að auðvelda líf sjómanna.
„Gervigreindarlíkön hafa verið þróuð fyrir flest störf, hvort sem það eru mannauðsstjórar, viðskiptastjórar eða annað, og með tilkomu textalíkana eins og Chat GPT er hægt að nota gervigreind í næstum hvað sem er. Marel er náttúrulega með gervigreind í fiskvinnslunni en almennt hefur svolítið vantað upp á það að horfa til skipstjóra og sjómanna. Þegar þeir eru að fara að veiða eiga þeir bara að „finna vindinn“, það er að segja að nota eigið hyggjuvit.
Það var atriði sem við horfðum til, það er fólksins sem er að fara út á sjó, fæða þjóðina og koma með gríðarlegt fjármagn í þjóðarbúið, sem lítið hefur verið gert fyrir hvað varðar tækniþróun. Það er svolítið eitt á báti og við vonumst til að geta auðveldað því lífið.
Eina endurgjöfin sem við raunverulega viljum hún er frá þessu fólki, þeim sem eru að fara út á sjó í alls kyns veðri og brælu og munu nota þetta,“ segir Sigurður.
„Helsti drifkraftur okkar er að sýna hvað Íslendingar geta gert, að stórminnka kolefnislosun í sjávarútvegi með tækniþróun, og það verður ekki gert nema með góðu samstarfi við notendur tækninnar,“ segir hann.
Nú þegar makrílvertíðinni er lokið horfa strákarnir til næstu vertíða.
„Við erum með tilbúna síldarspá sem kemur út á næstu vikum, síðan er það botnfiskurinn, þar sem við erum að setja fram spá fyrir ufsa, þorsk og ýsu. Svo verðum við tilbúnir með loðnuspá fyrir næstu vertíð,“ segir Sigurður.
„Bolfiskurinn er aðeins staðbundnari og þar er því meiri áhersla á gæði en staðsetningu. Þar skiptir mestu máli að hámarka verðmæti aflans sem kemur upp, en þar hafa umhverfisþættir mikill áhrif á gæði aflans,“ segir Sveinn.
Spennandi verði að sjá hvernig gangi að spá fyrir um norsk-íslensku síldina og loðnuna.
„Loðnan getur verið þvílíkt ólíkindatól, en raunprófanir okkar í fyrra lofa þó góðu,“ segir Sigurður.
Þetta er hluti af viðtali sem birtist miðvikudaginn 4. september. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild í ViðskiptaMogganum.