Stærsti banki Danmerkur, Danske Bank, hefur samþykkt að greiða 6,3 milljónir evra, sem jafngildir um 960 milljónum kr., í dómsátt í Frakklandi. Málið varðar ásaknir um peningaþvætti sem tengist dótturfélagi í Eistlandi.
Samkomulag á milli bankans og efnahagsbrotadeildar Frakklands náðist 27. ágúst um að ljúka málinu á þennan veg, en franskur dómstóll staðfesti niðurstöðu formlega í dag. Samkvæmt samkomulaginu játar bankinn aftur á móti ekki sök um að hafa staðið að peningaþvætti.
Dótturfélag Danske Bank í Eistlandi er sagt hafa þvættað um 200 milljarða evra, sem samsvarar um 27.000 milljörðum, í gegnum 15.000 bankareikninga á milli áranna 2007 til 2015. Þetta kom fram í óháðri endurskoðunarskýrslu sem var birt árið 2018.
Í desember viðurkenndi Danske Bank sök í Bandaríkjunum og þar var bankanum gert að greiða samtals tvo millarjaða dala í sekt, eða sem nemur um 270 milljörðum kr.
Í október í fyrra lagði bankinn um það bil jafnháa upphæð til hliðar til að vera reiðubúinn að takast á við önnur sambærileg mál í öðrum löndum.
Rannsóknir standa nú yfir í Eistlandi, Danmörku og í Bretlandi.
Árið 2019 ákærðu frönsk yfirvöld bankann fyrir skipulagt peningaþvætti, sem forsvarsmenn bankans neituðu. Þeir sögðust ekki hafa vitað neitt um starfssemi dótturfélagsins í Eistlandi.