Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir í opnuviðtali í ViðskiptaMogganum að Samfylkingin hafi á vissan hátt tekið upp stefnumál Framsóknar og gert að sínum.
„Það er þó einn munur, þau leggja alla áherslu á velferð en það má ekki gleyma því að án vaxtar og vinnu verður engin velferð,“ segir Sigurður Ingi.
Samfylkingin mælist með mikið fylgi um þessar mundir og hefur boðað það sem hún kallar „aðhald á tekjuhliðinni“ með skattahækkunum og að bótakerfið verði eflt.
Spurður hvort sú stefna samræmist stefnu Framsóknar segir Sigurður að sér finnist sumt sem kemur frá Samfylkingunni ekki ganga upp.
„Vinna, vöxtur og velferð hafa verið slagorð Framsóknar. En það sem Samfylkingin áttar sig ekki á er að vöxtur og vinna er grundvöllurinn að velferðarkerfinu. Það er ekki hægt að hækka skatta endalaust og dæla peningum í velferðarkerfið. Það gengur ekki upp,“ segir Sigurður Ingi.
Hann bætir við að Framsókn sé ekki kredduflokkur og það sé ekki í stefnuskrá að hækka eða lækka skatta.
„Við viljum blandað hagkerfi sem er sambærilegt hinum Norðurlandaþjóðunum. Það eru þau hagkerfi sem horft er til,“ segir Sigurður Ingi. Að hans mati er jöfnuður mikilvægari á Íslandi en í öðrum löndum vegna smæðar samfélagsins.
Lesa má meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.