Hjalti Már Einarsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Datera. Hann tekur við keflinu af Hreiðari Þór Jónssyni sem hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá 2020.
Datera sérhæfir sig í ráðgjöf í gagnadrifinni markaðssetningu og birtingum, en Hjalti hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2021 sem viðskiptaþróunarstjóri. Hjá fyrirtækinu starfa þrettán manns.
Hreiðar situr áfram í stjórn Datera auk þess sem hann sinnir sértækum verkefnum á sviði ráðgjafar og birtinga.
Hjalti Már Einarsson hefur starfað sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Datera frá 2021. Áður var hann forstöðumaður markaðssviðs Nordic Visitor frá 2009-2021. Hjalti er með MS-gráðu í upplýsingatækni og rafrænum viðskiptum frá IT Universitet í Kaupmannahöfn og Bachelor-gráðu í stjórnun og framleiðslu miðla frá Den Grafiske Höjskole í Kaupmannahöfn. Hann hefur setið í stjórn Samtaka vefiðnaðarins, í faghópi vefstjórnenda hjá SKÝ og í stjórn körfuknattleiksdeildar KR.