Það hefur aldrei verið meira að frétta og mörg flott verkefni eru í gangi á sviði landeldis. Þetta segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Samherja Fiskeldi, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Jón Kjartan hélt erindi á Fjármálaþingi Íslandsbanka sem fram fór á mánudag á Hilton Nordica. Þar fór hann yfir sögu og starfsemi Samherja Fiskeldis sem hefur á undanförnum árum staðið í mikilli uppbyggingu.
„Við höfum fjárfest mikið í starfseminni á síðustu 2-3 árum og við ætlum að klára þetta og byggja hér upp öflugt fyrirtæki á sviði landeldis,“ segir Jón Kjartan.
Hann segir rekstur fyrirtækisins hafa verið ágætan og að hann hafi byggst upp jafnt og þétt en fyrirtækið hefur verið í landeldi síðan um aldamótin. Fyrirtækið hefur framleitt um 40.000 tonn af bleikju og laxi á síðustu 14 árum. Samherji Fiskeldi er með 120 manns í vinnu, veltir fimm milljörðum, á 12 milljarða í eignum og níu milljarða í eigið fé.
Jón Kjartan segir að Ísland sé kjörinn staður fyrir starfsemi af þessu tagi. Ísland búi yfir mörgum ákjósanlegum þáttum sem geri það að verkum að hægt sé að byggja upp öfluga starfsemi í kringum greinina.
„Við höfum endurnýjanlegu orkuna og nóg af sjó og mikið af vatni. Það eru því mörg tækifæri. Við það bætist að afurðin er frábær og umhverfisvæn,“ segir Jón Kjartan. Hann segir að mikil tækifæri séu til að nýta gervigreind í rekstrinum og það sé í raun nauðsynlegt til að hámarka árangur.
„Gervigreindin er margþætt en í þessu tilfelli myndi það virka þannig að hún les úr gríðarlega miklum gögnum frá mörgum kerfum og getur bent á samsvörun eða frávik sem síðan er hægt að nýta til að stýra framleiðslunni á hagkvæmari hátt,“ segir Jón Kjartan.
Hann bætir við að það sé margt á döfinni hjá fyrirtækinu, meðal annars mjög stórt verkefni í Eldisgarði við uppbyggingu 36 þúsund tonna laxeldis en undanfarin þrjú ár hefur félagið fjárfest að auki fyrir sjö milljarða í núverandi rekstri og nýjum kerjum í Öxarfirði.
„Það eru margar áskoranir fram undan þó við höfum mikla reynslu á þessu sviði. En tækifærin eru líka mörg,“ segir Jón Kjartan að lokum.