Bjöllum Nasdaq kauphalla hefur víða verið hringt þessa vikuna og þar á meðal á Íslandi í tilefni af Alþjóðlegri fjárfestaviku 7. – 11. Október. Aðeins 11% ungmenna segjast hafa fengið fjármálafræðslu í grunnskóla samkvæmt nýlegri könnun Gallup.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.
Markmiðið með fjárfestavikunni er að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir almenning um fjárfestingar og sparnað.
Ungmenni sem unnu Fjármálaleika Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) aðstoðuðu Nasdaq Iceland og SFF við hringinguna á Kauphallarbjöllunni í ár.
Í kjölfarið tóku ungmennin þátt í Evrópukeppni í fjármálalæsi í Brussel á vegum Evrópsku bankasamtakanna (EBF).
„Góður skilningur á fjármálum getur hjálpað fólki að ná betri tökum á eigin fjárhag og taka upplýstar ákvarðanir um og sparnað,“ er haft eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq Iceland, í tilkynningunni.
„Verðbréfamarkaðurinn gegnir stóru hlutverki í þessum efnum sem vettvangur sem hefur beint og óbeint áhrif á fjárhag okkar. Aukin þekking á honum leiðir til ígrundaðri fjárfestinga og styrkir atvinnu- og efnahagslífið.”
Haft er eftir Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra SFF, að nýleg könnun Gallup sýni að aðeins 11% af ungmennum hefðu fengið fjármálafræðslu í grunnskóla.
„Það er afar mikilvægt að öllum börnum sé gefinn kostur á að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Því höfum við talað fyrir því að kennsla í fjármálum verði hluti af skyldunámi í grunnskólum. Bakland barna eða skólahverfi eiga ekki að ráða hér úrslitum. Öll börn verða að hafa tækifæri til að læra um fjármál,“ er haft eftir Heiðrúnu í tilkynningunni.
SFF hefur síðustu 10 ár haldið úti fræðsluvettvanginum Fjármálaviti með stuðningi Landssamtaka lífeyrissjóða.
Er þeim vettvangi ætlað að stuðla að bættu fjármálalæsi ungmenna og styðja kennara í grunn- og framhaldsskólum í kennslu um fjármál, meðal annars með fríu námsefni og öðrum viðburðum tengdum fjármálalæsi.
Fram kemur að á síðustu 10 árum hafi Fjármálavit gefið kennurum og nemendum um 18.000 bækur.
„Ungt fólk kallar eftir fræðslu og þekkingu um fjármál. Við skynjum skýrt að upplýsingamiðlun í þeim efnum er þarft og þakklátt verkefni sem við styðjum í verki. Klingjum því klukkum í nafni baráttunnar fyrir því að fjármálafræðsla og fjármálalæsi verði sjálfsögð námskrárefni í grunnskólakerfinu,“ er haft eftir Þóreyju S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða.