Áhættusöm áform Carbfix

Kynning á starfsemi Carbfix við Hörpu sem haldin var í …
Kynning á starfsemi Carbfix við Hörpu sem haldin var í tengslum við Hringborð norðurslóða. mbl.is/Eggert

Ólíklegt er að nýtt viðskiptakerfi með losunarheimildir á koldíoxíði í Evrópusambandinu (ETS) muni bera tilætlaðan árangur.

Þetta er mat Heiðars Guðjónssonar, hagfræðings og fjárfestis, en tilefnið eru mikil áform Carbfix á Íslandi.

Fjallað var um þau áform í samtali við Sævar Frey Þráinsson forstjóra Orkuveitunnar í ViðskiptaMogganum í fyrradag en þar sagði hann verkefnin geta skilað hundruðum milljarða. Nánar tiltekið að fjórar niðurdælingarstöðvar með koldíoxíð væru fyrirhugaðar á Íslandi en hver gæti skilað 350 milljarða tekjum. Þá feli hvert verkefni í sér fjárfestingu upp á 70-75 milljarða.

Lestin farin af stað

„Í Evrópu er þessi lest farin af stað. Það má eiginlega segja að með ETS-kerfinu sé skattlagning [á losun koldíoxíðs] orðin til,“ sagði Sævar Freyr. Af þeim sökum muni fyrirtæki sækja í þjónustu fyrirtækja á borð við Carbfix til að lækka hjá sér skattgreiðslur.

Spurður hvort ETS-kerfið leiði til þess að fyrirtæki muni greiða fyrirtækjum eins og Carbfix fyrir að binda koldíoxíð segir Heiðar að stórt sé spurt.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir og hagfræðingur.
Heiðar Guðjónsson fjárfestir og hagfræðingur. mbl.is/RAX

„Raunar er þetta kerfi meingallað. Það má taka dæmi af sjóflutningum. Mörg skipafélög treysta sér nú ekki til að fara um Súesskurðinn út af ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs heldur sigla frá Asíu suður fyrir Suður-Afríku, sem er gríðarlega löng leið. Svo umskipa þau í Marokkó til að komast hjá álögum. Þannig að vörum sem væru með réttu að fara til hafnar í Evrópu á stóru skipi er umskipað í Marokkó, í aðeins 20 km fjarlægð frá Spáni, og varan skilgreind eins og hún komi frá Marokkó. Fyrir vikið er kolefnisfótsporið aðeins reiknað út frá þessari 20 km leið til Spánar en ekki út frá mörg þúsund km leið frá Asíu eins og hefði verið ef þetta hefði verið gert með réttu. Kerfið er því meingallað,“ segir Heiðar.

Hefur þveröfug áhrif

Mun ETS-kerfið því ekki hafa tilætluð áhrif?

„Nei. Eins og þetta dæmi sýnir hefur það þveröfug áhrif. Það skapar hvata til að auka sóun enda er verið að umskipa vörum úr stórum og hagkvæmum skipum og setja í minni og óhagkvæmari skip til að komast fram hjá kerfinu.“

Telurðu þar af leiðandi að það verði ekki jafn mikil eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækja eins og Carbfix og forstjóri Orkuveitunnar áætlar?

„Fyrirkomulagið er svo gallað að ég myndi ekki treysta mér til að byggja framtíðarrekstur á slíku fyrirkomulagi.“

Ekki mikið samráð

Hvað með viðhorf atvinnulífsins í Evrópu? Þar með talið í meginríkjum ESB eins og Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu. Eru menn þar á sömu blaðsíðu?

„Þetta er pólitískt kerfi og eftir því sem ég fæ best séð var lítið samráð haft við atvinnulífið. Avinnulífið vill auðvitað minnka kolefnisfótsporið en þetta kerfi ýtir því í að gera hluti sem eru því þvert um geð. Þetta er enda röng verðlagning og röng gjaldtaka.“

Stórkostlegt ef það tækist

Telurðu að kerfið muni leiða til þess að iðnaður færist frá Evrópu?

„Það þarf að endurskoða þetta kerfi. Á meðan ekki er til fullmótað kerfi myndi ég ekki mæla með 70 milljarða fjárfestingu í kringum það [með fyrirhugaðri uppbyggingu Carbfix]. Ég myndi aldrei treysta mér til þess. Það er fífldirfska. Ég vona þó svo sannarlega að Carbfix takist ætlunarverkið. Það væri stórkostlegt ef það tækist. Áhættan í kringum þetta núna, þegar regluverkið er svona ómótað, er hins vegar alltof mikil. Það er verið að tefla fjármunum almennings í hættu að óþörfu,“ segir Heiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK