Hóf ferilinn í endurskoðun

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Eyþór Árnason

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hóf feril sinn í endurskoðun. Hann fer meðal annars yfir sín fyrri störf í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans þessa vikuna.

Bogi útskrifaðist af viðskipta- og endurskoðendasviði Háskóla Íslands árið 1998 og fór í kjölfarið að starfa hjá KPMG.

Á þeim tíma náði hann sér í löggildingu í endurskoðun og varð meðeigandi hjá stofunni en hann starfaði þar í 11 ár. Hann segir það hafa verið dýrmæta reynslu en í gegnum störf sín þar bauðst honum tækifæri til að gerast fjármálastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða Icelandic Group.

Umrætt fyrirtæki var skráð á markað á þeim tíma og með starfsstöðvar víða um heim. Hann segir að tíminn hjá Icelandic Group hafi verið mjög skemmtilegur enda mikið í gangi en fyrirtækið keypti meðal annars fyrirtæki í Bretlandi og Þýskalandi og gamalgrónu fyrirtækin í Bandaríkjunum voru sameinuð.

„Þetta voru skemmtileg ár en þegar góðærið stóð sem hæst fann ég löngun til að gerast bankamaður eins og svo margir aðrir,“ segir Bogi og bætir við að honum hafi boðist tækifæri til að koma að stofnun Askar Capital sem var fjárfestingarbanki sem var hluti af Milestonesamsteypunni.

Ráðningarferlið hröð atburðarás

Í ágúst 2008 þá varð hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Icelandair Group og gegndi því starfi í tíu ár uns Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, lét af störfum í ágúst 2018. Upphaflega átti hann aðeins að vera ráðinn tímabundið.

„Atburðarásin var mjög hröð þennan dag sem ég tók við. Ég sat á stjórnarfundi og Úlfar Steindórsson þáverandi stjórnarformaður kom til mín og bað mig um að taka við tímabundið þar sem Björgólfur var að hætta. Í minningunni hafði ég varla tíma til að hugsa um hvað í þessu fælist. Þetta mál var afgreitt á nokkrum sekúndum,“ segir Bogi og lýsir því að í kjölfarið hafi farið af stað ráðningarferli og hann hafi ákveðið að gefa kost á sér til áframhaldandi setu.

„Flugfélagið er með mikla sögu og frábært viðskiptalíkan, mannauðurinn er ómetanlegur. Það var því mikill heiður að hafa verið boðin staðan sem ég þáði að lokum,“ segir Bogi. Hann lýsir því að líkt og gefur að skilja sé forstjórastaðan afar ólík bæði fjármálastjórnun og endurskoðendastörfum. Í öllum þessum störfum skipti mannlegi þátturinn þó höfuðmáli. „Öll þessi störf eru afar skemmtileg og gefa manni tækifæri til að hitta margt áhugavert fólk víða í atvinnulífinu,“ segir Bogi.

Spurður hvað hafi helst heillað hann við fluggeirann og orðið þess valdandi að hann valdi starf á þeim vettvangi frekar en öðrum segir Bogi að það sé helst hin mikla dýnamík í þeim bransa sem hafi heillað hann hvað mest.

„Það eru engir tveir dagar eins og stöðugt nýjar áskoranir. Alþjóðlega samkeppnisumhverfið er síbreytilegt og við þurfum stöðugt að vera á tánum gagnvart utanaðkomandi þáttum sem hafa áhrif á reksturinn,“ segir Bogi.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta lesið viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka