Stjórnir hjúkrunarheimilanna Eirar, Skjóls og Hamra hafa ráðið Eybjörgu Helgu Hauksdóttur í stöðu forstjóra hjúkrunarheimilanna frá og með 1. desember nk. Eybjörg verður fjórði forstjóri heimilanna og jafnframt fyrsta konan til að gegna því starfi að því er segir í tilkynningu frá hjúkrunarheimilunum.
Eybjörg hefur starfað sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eirar, Skjóls og Hamra síðan 2021, auk þess sem hún gegndi einnig starfi framkvæmdastjóra Eir öryggisíbúða ehf. fyrstu tvö árin.
Á árunum 2015 – 2021 starfaði hún sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og þar áður á lögmannsstofu.
Eybjörg er lögfræðingur að mennt, er með BA og MA gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands, auk réttinda sem héraðsdómslögmaður.
Starfsemi hjúkrunarheimilanna Eirar, Skjóls og Hamra er umfangsmikil og margþætt en hjúkrunarheimilin veita tæplega 300 íbúum hjúkrunarheimilanna sólarhringsþjónustu. Einnig eru þar reknar þrjár sérhæfðar dagþjálfanir og ein almenn dagþjálfun, auk þess sem starfsmenn heimilanna veita samþætta þjónustu til íbúa í þeim 200 leiguíbúðum sem Eir öryggisíbúðir ehf. eiga. Þá er á Eir rekin ein stærsta endurhæfingardeild landsins.
„Það er mikill heiður að vera falin þessi ábyrgð. Það eru jafnframt forréttindi að fá að starfa innan félaga sem eru sérstaklega stofnuð til góðra verka og hafa starfað í áratugi á grundvelli hugsjóna um umhyggju gagnvart veikum og öldruðum í samfélaginu. Við stöndum frammi fyrir gífurlegum áskorunum í öldrunarþjónustunni á næstu árum með stórauknum fjölda þjónustuþega. Þær stofnanir sem byggja á samfélagslegum grunni munu gegna lykilhlutverki í þeirri þjónustuuppbyggingu sem fram undan er. Við á Eir, Skjóli og Hömrum erum ótrúlega heppin með starfsfólk, sem sinnir sínum störfum af einstakri alúð og er reiðubúið í þessi verkefni,“ er haft eftir Eybjörgu í tilkynningunni.
Um leið og stjórnir hjúkrunarheimilanna bjóða Eybjörgu velkomna til nýrra starfa vilja þær færa fráfarandi forstjóra, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, innilegar þakkir fyrir frábær störf í þágu hjúkrunarheimilanna undanfarin 13 ár. Fram til 1. desember munu núverandi og tilvonandi forstjóri vinna náið saman að yfirfærslu starfsins.