EBITDA Heima eykst um 7,5%

Halldór Benjamín Þorbergsson er forstjóri Heima.
Halldór Benjamín Þorbergsson er forstjóri Heima. Ljósmynd/Aðsend

Fasteignafélagið Heimar hagnast um 5,6 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 5,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. 

Rekstrartekjur námu 10.922 milljónum króna fyrstu níu mánuði ársins og þar af námu leigutekjur 10.335 milljónum króna. Leigutekjur hafa hækkað um 7,8% samanborið við sama tímabil 2023, sem jafngildir tæplega 1,1% raunaukningu. Nokkrar breytingar hafa orðið á eignasafninu á milli ára sem hafa áhrif á leigutekjur.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) var 7.439 milljónir króna sem samsvarar 7,5% aukningu samanborið við sama tímabil 2023. Kostnaður að fjárhæð 100 milljónir króna vegna  valfrjáls yfirtökutilboðs í Eik fasteignafélag hf. var gjaldfærður að fullu á öðrum ársfjórðungi.      

Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 189.674 milljónir króna. Safnið samanstóð í lok september af 99 fasteignum sem alls voru um 374 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall er um 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Heildarmatsbreyting fyrstu níu mánuði ársins nam 7.630 milljónum króna.

Í lok október tilkynnti félagið að sala á fimm fasteignum væri frágengin að undangengnu samþykki kauptilboðs frá Módelhúsum ehf. í byrjun mánaðar. Umræddar fasteignir eru Eyrartröð 2a, Norðurhella 10, Reykjavíkurvegur 74 auk Vatnagarða 6 og 8. Heildarfermetrafjöldi fasteignanna er 8.962 m2. Söluverð eignanna er samtals 3.275 milljónir króna og er söluhagnaður rúmlega 10%. Núverandi leigutekjur eignanna nema um 250 milljónum króna á ársgrundvelli. Söluandvirðið verður nýtt til fjárfestinga í samræmi við fjárfestingastefnu félagsins. Afhending eignanna hefur þegar farið fram. 

Reksturinn í takt við áætlanir

Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Heima segir í tilkynningu að reksturinn hafi gengið vel og sé í takti við metnaðarfullar áætlanir félagsins.

Við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði, sérstaklega á kjarnasvæðum Heima. Tekjuvöxtur leigutekna er 7,8% á fyrstu níu mánuðum ársins sem jafngildir um 1,1% rauntekjuvexti og sá tekjuvöxtur skilar sér í samsvarandi vöxt EBITDA sem eykst um 7,5% á milli ára. Heimar hafa fjárfest verulega í uppfærslum á eignasafni sínu á undanförnum árum samhliða kaupum á nýjum eignum og er þess nú farið að sjá stað í uppgjörum félagsins. Þessar fjárfestingar eru grundvöllur 7,8% vaxtar leigutekna á fyrstu níu mánuðum ársins.  Félagið hefur einnig skoðað tækifæri til sölu tiltekinna eigna og hefur heildarfermetrum eignasafnsins fækkað um tæp 2% frá árslokum 2022 með stefnumiðaðri eignasölu. Það sem af er ári hefur félagið selt eignir fyrir 3,3 milljarða þar sem verðið var að meðaltali ríflega 10% yfir bókfærðu virði. Þá hefur endurkaupaáætlun verið virkjuð með það fyrir augum að skila raunvirði þessara eigna beint til hluthafa," er haft eftir Halldór í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK