Vanhugsaðar ­skattabreytingar

Verulegra skattahækkana er að vænta á vöruflutninga á landsbyggðinni.
Verulegra skattahækkana er að vænta á vöruflutninga á landsbyggðinni. mbl.is/Sigurður Bogi

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans

Landsbyggðin á undir högg að sækja um þessar mundir, en hún stendur frammi fyrir lagabreytingum sem munu hafa mikil áhrif á tekjur sveitarfélaga víða um land til hins verra, atvinnulíf og vöruverð til hins almenna neytanda.

Eins og fjallað var um í fréttaskýringu í laugardagsblaði Morgunblaðsins stendur til að afnema ívilnanir á tolli og virðisaukaskatti vegna minni skemmtiferðaskipa í hringsiglingu um landið nú um áramót. Afnám ívilnananna er enn óútfært og ekki hefur verið unnið mat á efnahagsáhrifum ákvörðunarinnar eins og til stóð.

Óvissan hefur leitt til þess að útgerðir þessara skipa eru farnar að afbóka ferðir, ekki vegna þess að þær séu mótfallnar því að greiða auknar álögur, heldur vegna þess að ekki liggur fyrir hversu mikið eigi að greiða eða hvenær. Ferðir með skipum sem þessum eru seldar mörg ár fram í tímann og fyrirvarinn svo skammur og óvissan það mikil að þeim hefur reynst ófært að laga söluverð ferðanna að breytingunum.

Ef fram fer sem horfir eru líkur á að hringsiglingarnar leggist af og fjölmörg sveitarfélög á landsbyggðinni verði af tekjum sem hafa mikið vægi í rekstri þeirra, auk þess sem atvinnulíf í byggðarlögunum mun verða fyrir höggi. Talið er að tekjurnar sem tapist, leggist hringsiglingar af, nemi yfir tug milljarða þegar allt er talið.

Þessu til viðbótar liggur fyrir frumvarp um kílómetragjald á notkun ökutækja sem felur í sér verulegar skattahækkanir, líkt og fjallað er um í viðskiptaþætti Dagmála í dag. Með frumvarpinu er kolefnisgjald tvöfaldað auk þess sem kílómetragjald er lagt á, en samantekið bitna skattahækkanirnar einna mest á vöruflutningum á landsbyggðinni, á láði og legi. Þá munu hækkanir koma illa við þá sem reka dráttarvélar og landshluta sem neyðast til að framleiða raforku með dísilvélum.

Fjölmargir hagsmunaaðilar úr atvinnulífi og sveitarstjórnum hafa látið í ljós óánægju sína með frumvörpin, og óhætt er að taka undir gagnrýni þeirra hvað varðar mikilvægi þess að heildstætt áhrifamat sé unnið áður en svona breytingar eru keyrðar í gegn og að það sé gert í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Ákvarðanir sem þessar verða að byggjast á gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka