Jákvæðar horfur á heimsmörkuðum

Olav Chen, forsöðumaður hjá norska eignastýringarfyrirtækinu Storebrand.
Olav Chen, forsöðumaður hjá norska eignastýringarfyrirtækinu Storebrand. mbl.is/Kristinn Magnússon

Olav Chen, forstöðumaður hjá norska eignastýringarfyrirtækinu Storebrand, metur horfur á heimsmörkuðum almennt mjög jákvæðar. Svipp-sigur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta mun líklega draga úr líkum þess að Trump sæki fram með tollum og viðskiptastríði gagnvart Evrópu.

„Verðbólga hefur lækkað víðast hvar um heim og seðlabankarnir eru að draga úr taumhaldinu. Heilt yfir metum við horfur á mörkuðum mjög jákvæðar. Til marks um það erum við yfirvigtaðir í hlutafjárfestingum, bæði í Noregi og á heimsmörkuðum, sem og á nýmörkuðum (e. emerging markets). Þá erum við yfirvigtaðir
á skuldabréfamörkuðum,“ segir Olav.

„Við sjáum merki þess að markaðir stefni í mjúka eða enga lendingu og það er ástæða þess að við yfirvigtum áhættu töluvert. Þó að við séum á síðari hluta hagsveiflunnar er enn aukin hætta á kreppu, en við höfum séð hana frestast margsinnis og sjáum engin hættuteikn á lofti. Þær breytur sem við eltum í alþjóðaumhverfinu líta vel út,“ bætir hann við.

Beina sjónum sínum að vinnumarkaði

Olav segir seðlabanka í auknum mæli beina sjónum sínum að vinnumarkaði í stað verðbólgunnar, ekki síst sá bandaríski.

„Bandarískur vinnumarkaður er frekar að komast í jafnvægi en að veikjast. Það skapaðist hræðsla við kreppu á mörkuðum í byrjun ágúst vegna þess að atvinnuleysi þar jókst, en það hefur minnkað aftur. Í þessu samhengi skiptir miklu máli hvaða kraftar lágu að baki, en hið aukna atvinnuleysi mátti einkum rekja til framboðshliðar vinnumarkaðarins en ekki minnkaðrar eftirspurnar eftir vinnuafli.“

Þannig hafi aukinn fjöldi innflytjenda aukið framboð af vinnuafli og fyrir vikið jókst atvinnuleysi.

„Við sjáum engin veikleikamerki á bandarískum vinnumarkaði. Spár um hagvöxt í Bandaríkjunum hafa ekki staðist tvö ár í röð. Árið 2023 var engum hagvexti spáð en hann endaði í 2,5%. Í ár var 0,5% hagvexti spáð en hann mun enda í 2,5% aftur. Stóra spurningin er hvort árið 2025 muni þróast með sama hætti,“ segir Olav.

Hann bendir á að staðan sé þó aðeins önnur í Evrópu, hún litist af áhrifum af átökum, aðallega í Úkraínu en einnig í Mið-Austurlöndum.

„Þýskaland, sem er stærsta og mikilvægasta hagkerfi Evrópu, má muna fífil sinn fegri og mér sýnist veiking kínverska hagkerfisins hafa aukið á ógæfu landsins með þeim áhrifum að dregið hefur úr vexti útflutnings í landinu. En heilt yfir hefur það komið okkur á óvart hversu vel fyrirtækjum hefur gengið. Þrátt fyrir að hafa verið slegin af bæði hærri vöxtum og verðbólgu hefur þeim tekist að halda framlegð sinni nokkuð stöðugri og gengið mun betur en heimilunum. Það má segja að ástandinu hafi svolítið verið velt yfir á þau að mörgu leyti.“

Svippsigur jákvæðar fréttir fyrir Evrópu

Mikið hefur verið rætt um hvaða afleiðingar úrslit forsetakosninga í Bandaríkjunum gætu haft fyrir evrópska markaði. Eins og alþjóð veit var Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna í gær og sigraði með svippi, sem þýðir að repúblikanar sigrðu hvort tveggja í öldunga- og fulltrúadeild þingsins.

„Í ljósi svipp-sigursins er staða Trumps sterkari og það minnkar líkurnar á að hann sjái hag sinn í að vega að Evrópu með tollum og viðskiptastríði. Öðru máli gegnir um Kína, en fyrir var nokkurn veginn þverpólitísk sátt í Bandaríkjunum um að gagna hart fram gegn Kína.“

Nánar er rætt við Olav í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu sl. fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka