Safna áskriftum í nýjan kreditsjóð

Fríða Einarsdóttir sjóðstjóri hjá Stefni.
Fríða Einarsdóttir sjóðstjóri hjá Stefni. Ljósmynd/Aðsend

Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir er að stofna nýjan kreditsjóð (e. private credit fund) sem mun fjárfesta í fyrirtækjalánum.

Stefnir er um þessar mundir að safna áskriftarloforðum í sjóðinn en fyrirtækið hefur að undanförnu lagt áherslu á að þróa nýjar afurðir og er sjóðurinn hluti af því. Fyrirtækið hefur undanfarin tíu ár fjárfest í fyrirtækjalánum í samstarfi við bankastofnanir. Elsti lánasjóður í rekstri Stefnis fór yfir 20 milljarða í síðasta mánuði.

Fríða Einarsdóttir sjóðstjóri hjá Stefni segir í samtali við Morgunblaðið að hingað til hafi sjóðir Stefnir fjárfest í allskyns lánaafurðum en þó verið með ákveðna áherslu á fjárfestingu í fasteignatryggðum lánum. Nýr lánasjóður mun leggja meiri áhersla á annars konar lán sem beri meiri áhættu líkt og rekstrarlán og fjármögnun byggingarframkvæmda og því vænt ávöxtun hærri.

Kreditsjóðir vinsælir erlendis

Spurð hvort um algjöra nýjung sé að ræða segir Fríða að sjóðnum svipi til sjóða sem áður hafa verið í rekstri Stefnis.

„Við erum þó aðeins að breyta út af vananum og bjóða fjárfestum í auknum mæli aðgengi að lánum þar sem tryggingastrúktúr er flóknari en í fasteignalánum. Lánveitingar byggjast því meira á undirliggjandi rekstri lántaka heldur en markaðsvirði undirliggjandi veða eins og þegar um fasteignalán er að ræða. Fagfjárfestar hafa minni aðgang að slíkum fjárfestingum. Við viljum að fjárfestar geti valið hvað þeir taki mikla áhættu og bjóðum bæði upp á sjóði með litla áhættu og aðra með meiri áhættu,“ segir Fríða.

Sjóðir sem einblína á fjárfestingar í sérhæfðum lánum (e. private credit fund) hafa verið að sækja í sig veðrið erlendis á undanförnum árum. Fríða segir að erlendis hafi fjárfestingar í sjóðum af þessu tagi vaxið mun hraðar en hér á landi.

„Fjárfestar hér á landi eru að átta sig á þessari afurð sem er að gefa framúrskarandi ávöxtun þá einkum ef menn horfa til áhættuveginnar ávöxtunar. Á bak við þessar fjárfestingar liggja tryggingar og áhættan er minni en í hlutabréfatengdum afurðum,“ segir Fríða og bætir við að líkt og gefur að skilja þegar þrengir að í rekstri fyrirtækja þá fari fjármunir fyrirtækja fyrst í að borga af lánum áður en fjármunum er streymt til hluthafa.

„Það fallega við þennan sjóð er að lánardrottnar koma á undan hluthöfum í kröfuröðinni. Við erum að veita lán sem fara í gegnum tvöfalda síu; annars vegar í gegnum lánaferli bankanna og hins vegar í gegnum ferli hjá okkur þar sem við metum í hvaða lánum við viljum fjárfesta. Það er jákvætt fyrir okkur að geta teygt okkur inn í lánabækur bankanna og nýtt okkur innviðina sem eru þar og sterkum viðskiptasamböndum sem bankarnir eru með,“ segir Fríða og bætir við að bankarnir búi yfir mun sterkari innviðum en sjóðastýringarfyrirtækin.

Hún bendir á að samstarf Stefnis við bankana nýtist ekki bönkunum síður. Í ljósi þess að það er umtalsverð eiginfjárbinding sem fylgir fyrirtækjalánum, þá nýti bankarnir sitt eigið fé betur.

„Við teljum samstarfið jákvætt fyrir alla hagaðila og bankarnir eru líka að átta sig á því,“ segir Fríða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka