Heimatilbúinn vandi

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Ljósmynd/Aðsend

Ingólfur Bender skrifar:

Mikil verðbólga og háir vextir eru heimatilbúinn vandi. Framboðshlið hagkerfisins hefur ekki fylgt eftir þörfum atvinnulífsins og landsmanna. Kæla þarf eftirspurnina með háum vöxtum vegna þess að framboðið hefur ekki vaxið eins og þörf er á. Niðurstaðan er að enginn hagvöxtur verður líklegast á þessu ári. Skortur er á húsnæði og lóðum, innviðum og viðhaldi þeirra, menntuðu vinnuafli og raforku. Áætlanir stjórnvalda um úrbætur hafa verið lagðar fram en of hægt hefur gengið að koma þeim í framkvæmd. Afleiðingin hefur m.a. verið hröð hækkun húsnæðisverðs, verðbólga, háir vextir, hækkandi innviðaskuld, orkuskortur og töpuð tækifæri til aukinnar efnahagslegrar velmegunar samfélagsins.

Stjórnendur fyrirtækja í iðnaði telja mikilvægt að næsta ríkisstjórn beiti sér fyrir stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi. Þeir vilja í því sambandi að næsta ríkisstjórn stuðli að lækkun verðbólgu og vaxta, dragi úr byrðum á fyrirtækjum í formi skatta og gjalda, lækki eftirlits- og þjónustugjöld og einfaldi laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja. Þetta kemur meðal annars fram í könnun meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins vegna komandi alþingiskosninga.

Stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi bætir samkeppnishæfni og stuðlar að aukinni verðmætasköpun. Stöðugleiki skapar skilyrði fyrir samkeppnishæft atvinnu- og efnahagslíf og leggur þannig grunn að fjárfestingum í hagvexti framtíðarinnar. Hagkvæmt starfsumhverfi skapar samkeppnisforskot, það er þegar álögur skatta og gjalda eru lágar í alþjóðlegum samanburði, sem gefur fyrirtækjum sterkari stöðu í samkeppni við erlenda keppinauta og eykur þannig verðmæta- og atvinnusköpun. Skilvirkt starfsumhverfi dregur úr sóun og kostnaði, efnahagslífinu til heilla. Þetta næst eingöngu með gagnsæju og einföldu regluverki þar sem eftirlit er fyrirsjáanlegt og ekki óhóflega íþyngjandi. Stjórnvöld skapa heilbrigt og skilvirkt starfsumhverfi með því að tryggja jafnræði fyrirtækja á markaði og draga úr opinberum samkeppnisrekstri. Með bættum starfsskilyrðum eykst samkeppnishæfni og þar með verðmætasköpun.

Verðbólgan hefur verið mikil undanfarin misseri og vextir einnig. Verðbólgan mælist nú 5,1% og stýrivextir Seðlabankans eru 9%. Þróunin hefur verið í rétta átt undanfarið, þar sem verðbólgan hefur verið á niðurleið og Seðlabankinn er byrjaður að lækka vexti. En betur má ef duga skal. Í ofangreindri könnun kom fram að 92% stjórnenda fyrirtækja í iðnaði segja að það skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra að næsta ríkisstjórn skapi skilyrði fyrir lækkun vaxta og verðbólgu á næsta kjörtímabili. Ekki nema rúmlega 3% segja að það skipti litlu máli. Niðurstöðurnar sýna hversu brýnt hagsmunamál iðnaðarins, og raunar allra landsmanna, er að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Í ljósi ólíkra áherslna flokkanna, sem eru í framboði til Alþingis varðandi skatta og gjöld, eru það mikilvæg skilaboð að stjórnendur iðnfyrirtækja vilja að stjórnvöld leggi áherslu á að draga úr byrðum á fyrirtæki í formi skatta og gjalda. Skattar eru háir hér á landi í alþjóðlegum samanburði og bitnar það á samkeppnishæfni og verðmætasköpun hagkerfisins. Í könnuninni kemur fram að rúmlega 79% stjórnenda fyrirtækja í iðnaði segja að það skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra að næsta ríkisstjórn leggi áherslu á að draga úr byrðum á fyrirtæki í formi skatta og gjalda. Ekki nema tæplega 5% segja að það skipti litlu máli.

Samtök iðnaðarins hafa lagt fram 30 umbótatillögur fyrir komandi kosningar. Þær eiga erindi til næstu ríkisstjórnar svo efla megi samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Ná þarf verðbólgu og vöxtum niður með aðgerðum í ríkisfjármálum sem efla framboðshlið hagkerfisins, draga úr álögum skatta og gjalda á fyrirtæki, auka skýrleika og gagnsæi regluverks, hætta að setja íþyngjandi ákvæði í lög umfram lágmarkskröfur við innleiðingu á Evrópuregluverki („gullhúðun“) og einfalda gildandi regluverk með því að fjarlægja séríslenskar viðbætur („afhúðun“). Einnig er lagt til að auka gagnsæi í innheimtu gjalda eftirlitsstofnana, fækka og sameina ríkisstofnanir með aukinni hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi, og aðlaga regluverk nýjum atvinnugreinum þar sem regluverkið þarf að taka mið af framþróun samfélags og atvinnulífs. Skilaboðin frá iðnaðinum eru skýr.

Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka