Edda Bára Árnadóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri Bláma á Patreksfirði en Blámi er samstarfsverkefnis Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Vestfjarðarstofu og Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins.
Í tilkynningu frá Bláma segir að Edda Bára hafi frá árinu 2018 starfað sem sérfræðingur hjá KPMG þar sem verkefni hennar voru einna helst á sviði virðisaukaskatts, aðgerða gegn peningaþvætti og félagaréttar. Hún er með BSc- og ML-gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.
„Ég hlakka mikið til að koma aftur heim eftir 13 ára fjarveru og geta lagt mitt af mörkum til samfélagsins. Ég hef mikla trú á Vestfjörðum og það er gaman að sjá hvernig atvinnulíf á svæðinu hefur breyst síðustu ár meðal annars vegna fiskeldis, ferðaþjónustu og vaxtar Kerecis,“ er haft eftir Eddu í tilkynningunni.