Kemi hefur áttfaldast á tíu árum

Hermann sér tækifæri til að stækka Kemi enn frekar hvort …
Hermann sér tækifæri til að stækka Kemi enn frekar hvort sem er í bílgreininni eða iðnaðarvörunum. Eyþór Árnason

Starfsemi Kemi hefur áttfaldast síðan Hermann Guðmundsson keypti fyrirtækið ásamt níu viðskiptafélögum sínum árið 2014. Nú eru aðeins tveir eigendur eftir, Hermann sjálfur og Bjarni Ármannsson fjárfestir.

Áætluð velta á þessu ári er þrír milljarðar króna en árið 2014, þegar félagið var keypt, var veltan 350 milljónir.

Sextíu starfa hjá Kemi á þremur stöðum, á Tunguhálsi, Hyrjarhöfða og í Skeifunni.

Eins og fjallað hefur verið um í ViðskiptaMogganum datt félagið í lukkupottinn í faraldrinum ef svo má að orði komast. Kemi er með umboð fyrir 3M sem framleiðir grímur, spritt og hanska sem seldust grimmt á tímum veirunnar.

Hermann segir að ágóðinn af þeirri sölu hafi verið notaður til að kaupa Poulsen árið 2022, en fyrirtækið er í svipuðum rekstri og Kemi, sölu smurvara og ýmissa annarra bílavara, auk þess að reka tvö bílrúðuverkstæði. Við kaupin stækkaði rekstur Kemi til muna.

Veltan hélst mikil

Hermann segir að þrátt fyrir að faraldrinum sé nú lokið hafi veltan haldist mikil. „Veltan hefur ekki gengið til baka heldur færst yfir í aðra vöruflokka. Við notuðum ágóðann af þessum covid-tíma til að fjárfesta í kaupunum á Poulsen. Það er 112 ára gamalt félag með svipaðar rætur og Kemi. Fyrir tuttugu árum keypti Poulsen bílrúðufyrirtækið Orku – Snorra G. Guðmundsson hf. og það varð burðarás í rekstrinum. Við erum með tvö verkstæði í dag sem gera ekkert annað allan daginn en að skipta um bílrúður. Poulsen er einnig mjög stórt í innflutningi á bílrúðum og selur til annarra ísetningaraðila.“

Spurður um frekari skýringu á því af hverju veltan hélst óbreytt eftir faraldur segist Hermann ekki hafa greint það nákvæmlega en allur peningur sem kom inn hafi verið notaður til að styrkja félagið, eins og kaupin á Poulsen eru dæmi um. Einnig hafi verið keyptur meiri lager og vöruúrval aukið. „Ég held að þetta sé blanda af heppni og sóknarhug,“ útskýrir Hermann.

Hann segir að covid-tímarnir hafi verið lærdómsríkir. „Meginlærdómurinn var hvað aðfangakeðjan er mikilvæg og hvað Evrópa stendur á veikum grunni þegar kemur að framleiðslu á iðnaðarvörum. Það þurfti að sækja allt til Asíu á þessum tíma.“

Hann segir að nágrannaþjóðirnar hafi margar hverjar sett á útflutningsbann á covid-vöruflokkana. „Þær voru að verja sinn heimamarkað. Þá sá maður að þetta EES-samstarf er bara í orði en ekki á borði þegar á reynir.“

Hluti af framtíðaráformum

Hermann segir að kaupin á Poulsen séu hluti af framtíðaráformum félagsins. „Ef horft er lengra fram í tímann eru öll merki um að smurolíumarkaðurinn muni minnka því rafbílar nota ekki smurolíu. En bílrúður verða alltaf á sínum stað. Það er markaður sem ekki mun dragast saman.“

Hermann segir að ákveðið hafi verið að fara sér hægt eftir kaupin á Poulsen til að ná vel utan um reksturinn. „Nú er það komið í höfn og við höfum lokið innleiðingunni. Það er góður taktur í sameinuðu félagi í dag sem rekið er á einni kennitölu þó vörumerkin séu tvö.“

Spurður nánar út í þá staðreynd segir Hermann að Poulsen sé sterkara vörumerki í smásölu en Kemi.

  Er einhver beygur í ykkur út af rafbílavæðingunni?

„Nei, því ég held að hún muni ekki gerast hratt. Það má segja að sú mikla fólksfjölgun sem orðið hefur á Íslandi hafi komið í stað þeirra rafbíla sem streymt hafa á göturnar. Íslendingar kaupa rafbílana en útlendingarnir kaupa frekar ódýrari jarðefnaeldsneytisbíla. Sá floti hefur eiginlega haldist óbreyttur. Í dag eru 370 þúsund bensín- og díselbílar á götunum en tuttugu þúsund rafbílar. Þetta er ekkert farið að bíta okkur ennþá.“

Hermann segir aðspurður að þegar smurefnasala fari að dragast meira saman, ef horft er 15-20 ár fram í tímann, þá muni aðrir hlutar starfseminnar vega upp á móti. „Það er helst árekstramarkaðurinn. Rafbílar beyglast eins og aðrir bílar og við erum stórir í bílalakki og vörum tengdum bílaviðgerðum. Svo eru það auðvitað rúðurnar.“

Framkvæmdastjórinn nefnir einnig hjólbarða. „Rafbílar þarfnast færri rekstrarvara en hefðbundnir bílar, en við erum líka með Bosch-umboðið. Bosch er mjög framarlega í skynjurum, rafkerfum og rafmagnshlutum fyrir rafbíla. Hægt og rólega mun það fara að seljast meira. Þessir bílar munu bila eins og aðrir bílar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK