Sakar First Water um óheiðarleg vinnubrögð

Starfsemi fyrirtækjanna á að vera í sömu götu.
Starfsemi fyrirtækjanna á að vera í sömu götu. Tölvuteikning af áformunum

Talsmaður mölunarverksmiðjunnar Heidelberg sakar laxeldisfyrirtækið First Water um óheiðarleg vinnubrögð, í kjölfar umfjöllunar sem birtist á mbl.is í dag þar sem forstjóri First Water segir að starfsemi Heidelberg eigi ekki heima í nágrenni við starfsemi First Water.

Starfsemi fyrirtækjanna á að fara fram í sömu götu í Þorlákshöfn.

Í tilkynningu sem Heidelberg hefur gefið frá sér segir að First Water hafi verið fullmeðvitað um áform Heidelberg í Þorlákshöfn fyrir einu og hálfu ári og vísar verksmiðjufyrirtækið til lóðaleigusamnings frá 11. apríl 2023 þar sem er að finna ákvæði sem segir að leigutaki sé upplýstur um uppbyggingu um annars konar iðnaðar á aðliggjandi lóðum, svo sem mölunarverksmiðju og áburðarverksmiðju. 

Fyrsta viðbragðið kom rétt fyrir íbúakosningu

„Á engu formlegu stigi undirbúnings þessa verkefnis, sem staðið hefur yfir í meira en þrjú ár, hefur First Water sett fram athugasemdir við það. Hvorki í umsagnarferli matsáætlunar vegna umhverfismats snemma árs 2023, né við umhverfismatið sjálft snemma árs 2024 og ekki heldur í kynningu á deiliskipulagsbreytingum þeim sem íbúakosningin nú snýst um. 

Ólíkt þeim fiskeldisfyrirtækjum sem áforma starfsemi á aðliggjandi lóðum hafði First Water heldur aldrei samband við Heidelberg til að afla sér upplýsinga um starfsemina né lýsa áhyggjum þeim sem fyrirtækið lýsir nú,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir jafnframt að fyrsta viðbragð First Water hafi komið rétt fyrir áformaða íbúakosningu síðastliðið vor „og voru athugasemdir fyrirtækisins þar við fyrirhugaða starfsemi Heidelberg mjög óljósar á þeim tímapunkti“.

Fengu tvær verkfræðistofur til að meta starfsemina

Í kjölfarið var ákveðið að fresta íbúakosningu til að bregðast við athugasemdum fyrirtækisins.

Þá fékk Heidelberg verkfræðistofuna Cowi með sér til liðs til þess að leggja mat á hljóð, ryk og titring vegna starfseminnar. Auk þess fékk Ölfus erlendan sérfræðing til þess að leggja mat á hættu á umhverfisslysum vegna skipasiglinga. 

„Niðurstöður beggja rannsókna voru ótvíræðar. Umhverfisáhrif Heidelberg töldust óveruleg í samræmi við bakgrunnsgildi varðandi hljóð- og loftgæði og titringur vegna framleiðslunnar taldist einnig óverulegur. Þær niðurstöður voru staðfestar af verkfræðistofunni Eflu sem óháðum aðila,“ segir í tilkynningunni. 

Segja vinnubrögðin ófagmannleg og óheiðarleg

Nú á mánudag hófst bindandi atkvæðagreiðsla íbúa í Ölfusi um uppbyggingu Heidelberg á svæðinu. Kosning stendur yfir til 9. desember og mun niðurstaðan ráða úrslitum um hvort fyrirtækið muni byggja starfsemi sína upp á svæðinu.

Í tilkynningunni er fullyrt að First Water stígi aftur inn í umræðuna í tengslum við íbúakosninguna og hvetji íbúa til að fella hana. 

„Íbúar Þorlákshafnar hljóta að spyrja sig þeirrar spurningar hvaða hvatir liggja að baki yfirlýsingu félagsins. Heidelberg harmar hversu ófagleg og óheiðarleg vinnubrögð forstjóra First Water í þessu máli hafa verið.“

Á hluthafafundi sem First Water hélt síðastliðinn miðvikudag sögðust stjórnendur fyrirtækisins treysta því að íbúar muni taka rétta ákvörðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK