Bílaþvottastöðin Löður hefur opnað nýja þvottastöð á Grímseyjargötu 2 á Oddeyrinni á Akureyri. Hörður Ingi Þórbjörnsson, rekstarstjóri þvottastöðvarinnar, sagði í samtali við mbl.is að verið sé að leggja lokahönd á hugbúnað en stefnt sé að því að opna áður en dagurinn er úti.
Hann segir að tæknimenn séu að störfum í þessum skrifuðu orðum.
„Planið er að opna seinnipartinn í dag. Við förum ekkert heim fyrr en stöðin er tilbúin. Við þurfum að prufa forrit og skynjara og viljum opna með stæl þannig að allt sé í lagi,“ segir Hörður.
Löður lokaði bílaþvottastöð á Akureyri í mars en að sögn Harðar hefur ávallt verið stefnan að opna að nýju í bæjarfélaginu.
„Við þurftum að byrja á því að finna húsnæði, svo þurfti að breyta því. Við erum með vatn og efni. Því þarf að setja skiljur og frárennsli sem þarf að vera í lagi. Við erum með samrunagildrur og gildrur svo við séum ekki að setja neitt út í almenna frárennslið af einhverjum efnum. Við viljum að sjálfsögðu vinna þetta með náttúrunni og erum að auglýsa þetta sem náttúruvænni kost en að gera þetta heima því við skiljum allt frá,“ segir Hörður.