Tern Systems lýkur við stóran áfanga

Starfsfólk Tern Systems og HungaroControl sem tók þátt í prófunum …
Starfsfólk Tern Systems og HungaroControl sem tók þátt í prófunum á Polaris. Kerfið verður tekið í notkun á fyrri hluta árs 2026.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems, sem er í eigu Isavia og hefur í næstum 30 ár þróað hugbúnaðarlausnir fyrir stjórn flugumferðar á Íslandi og selt í Evrópu, Asíu og Afríku, og HungaroControl, sem sér um stjórnun flugumferðar yfir Ungverjalandi og Kósovó, hafa undirritað svokallað viðtökuvottorð fyrir prófunum á flugumferðarstjórnunarkerfinu Polaris, flaggskipi Tern Systems. Polaris er innleitt sem varakerfi og er liður í að auka öryggi og skilvirkni í flugumferðarstjórnun á svæðinu.

Vottorðið þýðir að kerfið hefur gengið í gegnum ítarlegar prófanir og uppfyllt öll tæknileg og rekstrarleg skilyrði sem sett voru fram af kaupanda.

Samkvæmt upplýsingum frá Tern Systems er viðtökuvottorðið stór áfangi í afhendingu kerfisins til HungaroControl en flugstjórnarsvæðið í Ungverjalandi og Kósovó hefur þurft að taka við aukinni flugumferð síðustu ár, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Verður aðalkerfi á Íslandi

„Við hjá Tern Systems erum afar ánægð með þennan mikilvæga áfanga í afhendingu á Polaris-kerfinu til HungaroControl. Það tekur langan tíma að innleiða kerfi fyrir stjórnun flugumferðar. Tern Systems og HungaroControl hafa í samvinnu þróað og aðlagað Polaris-kerfið að þörfum Ungverjalands í tæp fjögur ár. Stefnt er að því að Polaris-kerfið verði tekið í notkun á fyrri hluta árs 2026 fyrir bæði flugstjórnarsvæðin,“ segir Magnús Þórðarson framkvæmdastjóri Tern Systems.

HungaroControl er annar tveggja helstu samstarfsaðila Tern Systems í þróun Polaris-kerfisins. Áður en HungaroControl kom að verkefninu höfðu Tern Systems og Isavia ANS haft samstarf um að þróa Polaris-kerfið fyrir stjórnun flugumferðar yfir Íslandi. Stefnt er á að taka Polaris í notkun sem aðalkerfi fyrir stjórnun aðflugs yfir Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli á árinu 2026.

Magnús segir að náin samvinna við sérfræðinga frá HungaroControl og Isavia ANS hafi gert Tern Systems kleift að þróa Polaris-kerfið fyrir flugleiðsögu á svæðum með ólíkar áskoranir. „Viðtökuvottorðið fyrir prófununum er mikilvæg staðfesting á því að þróun Polaris-kerfisins er í takt við þarfir og kröfur stórra alþjóðlegra viðskiptavina okkar og staðfesting á því að við erum á réttri leið,“ segir Magnús.

HungaroControl veitir flugleiðsöguþjónustu bæði í ungverskri lofthelgi og einnig yfir Kósovó. Á undanförnum árum hefur fyrirtækið unnið brautryðjandastarf við að leiða og styðja nýsköpun til að auka flugöryggi og afkastagetu, lækka kostnað flugfélaga og efla umhverfisvernd. „Við höfum verið að þróa Polaris ATM-kerfið ásamt Tern Systems síðan 2020, og þessar prófanir eru mikilvæg staðfesting á því að þróun Polaris ATM er í takt við væntingar okkar og þarfir,“ segir Gabor Szabo hjá HungaroControl.

Heildstæð lausn

Eins og fyrr sagði byggjast hugbúnaðarlausnir Tern Systems á löngu samstarfi við Isavia ANS sem sér um stjórnun flugumferðar yfir Norður-Atlantshafi en svæðið er eitt það víðfeðmasta og umferðarmesta í heiminum í dag. Polaris er heildstætt hugbúnaðarkerfi sem er hannað til þess að stjórna flugumferð og uppfyllir ströngustu kröfur sem gerðar eru til stjórnunar flugumferðar í Evrópu.

Hjá Tern Systems starfa yfir 80 manns en fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Íslandi og skrifstofur í Ungverjalandi og Póllandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK