Laxeldi í Noregi er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins og hefur mikil áhrif á efnahag, útflutning og byggðarlög, sérstaklega á strjálbýlum svæðum. Með 50% af heimsframleiðslu er Noregur stærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum.
Árið 2022 nam útflutningsverðmæti á eldislaxi þar í landi yfir 118 milljörðum norskra króna sem samsvarar rúmum 1.652 milljörðum íslenskra króna á meðalgengi ársins 2022, sem er met í greininni og vex verðmætið með hverju ári. Eldislax er nú ein mikilvægasta útflutningsvara landsins á eftir olíu og gasi. Árið 2022 voru framleiddar yfir 1,5 milljónir tonna af eldislaxi í landinu.
Laxeldi er einnig mikilvæg atvinnugrein á landsbyggðinni í Noregi og skapar yfir 25.000 störf í tengdum greinum. Að auki hefur tækniþróun í greininni orðið til þess að norsk fyrirtæki eru leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á búnaði, líftækni og vistvænum lausnum.
Róbert Róbertsson fjármálastjóri Kaldvíkur segir í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans að ekki sé alfarið hægt að heimfæra reynslu Norðmanna upp á starfsemina hér á landi. Í dag starfi um 200 manns hjá félaginu og uppbygging félagsins hafi staðið yfir í um 12 ár.
„Við erum svo heppin að við erum með í okkar DNA að nýta þau tækifæri sem bjóðast hverju sinni. Við höfum lært og heimfært allt það besta frá öðrum og aðlagað íslenskum aðstæðum. Til dæmis er sjávarhiti lægri hér en á flestum öðrum svæðum, þetta er mikill kostur þar sem til dæmis er engin lús á Austfjörðum, en kostnaður við lús í Noregi er um 5-10% beinn kostnaður. En á móti vex laxinn minna í kaldari sjó sem þýðir að við þurfum lengri tíma og meiri lífmassa til að ná sama framleiðslumagni og Norðmenn. Þannig að fjárbinding er meiri hér á landi. En á móti gerast hlutirnir hratt þegar hitinn hækkar. Nú í haust var laxinn að bæta á sig yfir einu kílói á mánuði, sem er gífurlega flottur vöxtur,“ segir Róbert.
Hann bætir við að Norðmenn séu að glíma við sömu vandamál og Íslendingar hvað varðar neikvæða umræðu um greinina. „Umræðan hér á Íslandi er oft á tíðum ósanngjörn og það sama gildir í Noregi. Það eru miklir hagsmunir í húfi og umræðan eftir því,“ segir Róbert.
Helstu fjárhagslegu mælikvarðarnir í greininni eru EBIT á hvert kíló og kostnaður á hvert kíló. Róbert segir að þegar kemur að þeim mælikvörðum sé greinin að nálgast það sem gengur og gerist í Noregi.
„Við höfum verið að auka framleiðsluna og náð betri nýtingu á innviðum okkar.“
Spurður um fjármögnun félagsins segir Róbert að á árunum 2022 og 2023 hafi verið ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu á félaginu og farið í 75 milljóna evra hlutafjáraukningu sem samsvarar tæpum 11 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Félagið er fjármagnað með sambankaláni upp á 180 milljónir evra sem samsvarar rúmum 26 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi, en að sambankaláninu koma DNB, Nordea, Arion og Landsbankinn.
Viðtalið birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.