Vegna vaxandi álags og aukins umfangs hjá Rannís hefur borið á því að afgreiðslu umsókna um endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarstarfs fyrirtækja hefur seinkað.
Rannís er stofnun sem hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar á Íslandi, auk samstarfsáætlana ESB og norrænna áætlana sem veita styrki til samstarfsverkefna, náms og þjálfunar, eins og fram kemur á heimasíðu Rannís.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að seinkunin hafi valdið vandræðum hjá sprotafyrirtækjum sem mörg hver eru skuldsett og ráða illa við að bíða eftir peningunum.
Ágúst Hjörtur Ingþórsson forstöðumaður Rannís segir í samtali við Morgunblaðið að álagið þýði að stofnunin sé í einhverjum tilvikum seinni til svara en áður. „Flækjustig verkefna hefur aukist, fyrirspurnum hefur fjölgað og við þurfum í auknum mæli að óska eftir viðbótargögnum til að sannreyna að fyrirtækin eigi rétt á endurgreiðslum. Þetta hefur í för með sér talsverðar bréfaskriftir fram og til baka milli okkar og fyrirtækjanna, og eftir atvikum við endurskoðendur þeirra og lögfræðinga. Einnig þurfa sérfræðingar Rannís að taka þátt í endurskoðun, úttektum og öðru mati á þessari stuðningsaðgerð,“ segir Ágúst.
Spurður nánar um tímarammann og þá staðreynd að fyrirtæki búist fyrr við svörum segir Ágúst að fyrirtæki þurfi að sækja um endurgreiðslur fyrir 1. október ár hvert fyrir ný verkefni, það ár sem útgjöldin falla til. Til að fyrirtæki geti fengið frádrátt frá tekjuskatti eða rannsóknakostnað endurgreiddan þarf niðurstaða að liggja fyrir einu ári síðar, eða áður en skatturinn afgreiðir framtal þess árs.
„Það eru ekki mörg, ef nokkur, dæmi þess að okkur hafi ekki tekist að afgreiða erindi innan þess tímaramma. Þannig að þótt afgreiðsla hjá Rannís tefjist, þá hefur það ekki áhrif á hvenær fyrirtæki fá endurgreiðslu frá Skattinum,“ segir Ágúst.
Hann segir að fyrirtæki sæki sífellt meira í úrræðið. „Það eru fleiri umsóknir núna sem við teljum að þurfi að rýna betur enda er það okkar verkefni að skoða hvað eru raunveruleg nýsköpunar- og rannsóknarverkefni og hvað fellur svo undir eðlilega starfsemi fyrirtækjanna. Einnig þarf að skoða kostnaðarliði verkefna gaumgæfilega, til að sannreyna að einungis sé talinn til leyfilegur kostnaður í umsóknum.“
Um fjölda umsókna segir Ágúst að um 300 nýjar umsóknir hafi komið fyrir 1. október í ár og annað eins af framhaldsumsóknum í vor. Telur Ágúst að toppnum sé nú náð hvað varðar fjölda umsókna. „Þó að það sé nokkur fjöldi umsókna sem hefur dregist að afgreiða af þessum sökum, þá eru skýringar á því. Vinnan hefur aukist mikið eftir að þakið og prósentan var hækkuð. Fleiri fyrirtæki nýta þetta og við þurfum að rýna umsóknir betur.“
Fyrirtæki geta talið fram allt að 1,1 milljarð á ári í rannsóknar- og þróunarkostnað og um tveggja þrepa kerfi er að ræða hvað snertir hlutfall þess kostnaðar sem fæst endurgreiddur. Lítil og meðalstór fyrirtæki geta fengið endurgreidd 35% af útlögðum rannsóknar- og þróunarkostnaði en stærri fyrirtæki 25%. Spurður að því hvort stofnunin hafi þurft að bæta við sig fólki til að anna auknu álagi segir Ágúst að sérfræðingum hafi verið fjölgað fyrir tveimur árum úr tveimur í þrjá. Það hafi hins vegar ekki dugað til. „Við erum í samræðum við fjármálaráðuneytið um að bæta við fólki.“
Ágúst segir að horfa verði á málið í samhengi við það að búið sé að þrefalda fjárhæðir sem eyrnarmerktar eru til úrræðisins. „Þetta hefur á fimm árum farið úr fimm milljörðum upp í nærri 18 milljarða.“
Hann segir um árangur af úrræðinu að hann sé góður og hafi stuðlað að meiri nýsköpun í landinu. „Við sjáum að útgjöld fyrirtækja í þessa starfsemi hafa aukist.“ Árið 2022 hafi útgjöldin numið 72% af heildarútgjöldum til rannsókna og þróunar í landinu sem er mikil aukning frá því fyrir nokkrum árum. „Það er mjög gott hlutfall því OECD, efnahags- og viðskiptastofnun Evrópu, hefur sett það viðmið að skiptin milli hins opinbera og einkaaðila sé 1/3 hjá hinu opinbera á móti 2/3 hjá einkaaðilum.“