Árangurs að vænta á næsta ári

Kristjana Thors Brynjólfsdóttir var á dögunum fengin til að stýra …
Kristjana Thors Brynjólfsdóttir var á dögunum fengin til að stýra nýju sviði hjá Sýn, Miðlar og efnisveitur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipurit fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar tók breytingum í byrjun nóvember. Þá voru tveir nýir stjórnendur ráðnir inn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Kristjana Thors Brynjólfsdóttir var síðan á dögunum ráðin til þess að stýra nýju sviði hjá Sýn sem ber heitið Miðlar og efnisveitur. Undir sviðið heyrir innlend og erlend dagskrárgerð, íþróttadeild, rekstur fréttastofu, útvarps og hlaðvarpa.

Kristjana hefur áratugareynslu af fjölmiðlageiranum á Norðurlöndunum. Hún hefur starfað hjá Warner Bros. Discovery og Viaplay Group. Þar hefur hún m.a. sérhæft sig í stefnumótun, efniskaupum og markaðssetningu, auk stjórnunar stafrænna umbreytingarverkefna.

Í samtali við ViðskiptaMoggann segist hún ætla að nýta þá reynslu sem hún öðlaðist á erlendri grundu til að keyra í gegn mikilvæg verkefni í rekstri Sýnar.

Spurð hvort hún muni koma með áherslubreytingar inn í nýtt starf segir Kristjana að áherslurnar breytist ekki mikið hvað efnið varðar.

„Miðlarnir okkar hafa hingað til verið mjög vel reknir og við erum með sterka stjórnendur innanborðs. Fjölmiðlaumhverfið er síbreytilegt og við hjá Sýn erum í samkeppni bæði við innlenda og erlenda miðla. Það er kostnaðarsamt að framleiða innlent efni en það eru tækifæri falin í því að efla samstarf við erlendar efnisveitur,“ segir Kristjana.

Hún nefnir í því samhengi að samningur Sýnar við Viaplay feli í sér mörg tækifæri. Sýn selji ekki aðeins vörur frá Viaplay heldur sé einnig samstarf um framleiðslu á íþróttaefni.

„Sýn getur nýtt styrkleika sína á innlenda markaðnum í samstarfi við fyrirtækin úti í heimi,“ segir Kristjana.

Rekstrarhagnaður (EBIT) á þriðja ársfjórðungi hjá Sýn var 363 milljónir króna, samanborið við 590 milljónir króna á fyrra ári. Hagnaður eftir skatta á fjórðungnum nam 17 milljónum króna samanborið við 321 milljónar króna hagnað á sama tímabili árið 2023. Í tilkynningu vegna uppgjörsins sem birt var um miðjan nóvember kom fram að munurinn skýrðist helst af minni tekjum af IoT-þjónustu, hærra kostnaðarverði og hærri afskriftum sýningarrétta sem voru lægri á sama tíma í fyrra vegna endursamninga við birgja.

Haft er eftir Herdísi Dröfn Fjeldsted forstjóra Sýnar í fréttatilkynningu að rekstrarniðurstaða félagsins hafi verið lituð af of mikilli yfirbyggingu.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK