Aðkoma stafrænu markaðsstofunnar Ceedr, sem hét þar til nýlega The Engine Nordic og er alfarið í eigu auglýsingastofunnar Pipars\TBWA, átti stóran þátt í að TBWA á Norðurlöndum landaði risafyrirtækinu Tetra Pak sem viðskiptavini árið 2021.
Hreggviður Steinar Magnússon framkvæmdastjóri Ceedr segir í samtali við ViðskiptaMoggann að TBWA á Norðurlöndum hafi ekki átt stafræna markaðsstofu að systurstofu eða dótturfyrirtæki eins og Pipar\TBWA, gerði á þessum tíma. „TBWA í Finnlandi er 150-200 manna auglýsingastofa. Þegar þau heyrðu af okkur í gegnum Pipar\TBWA óskuðu þau eftir þátttöku okkar í teymi sem vann að kynningu fyrir Tetra Pak, sem er 24 þúsund manna fyrirtæki. Við brugðumst skjótt við og ég fór m.a. út til að taka þátt. Til að gera langa sögu stutta þá náðum við að heilla stórfyrirtækið sem skrifaði undir samning við TBWA í kjölfarið. Eftir undirskrift sagði Tetra Pak að önnur helsta ástæðan fyrir ákvörðuninni hefði verið yfirburðaþekking TBWA á stafrænni markaðssetningu. Sigurinn varð til þess að það kviknaði á perum hjá stjórnendum hinna TBWA-auglýsingastofanna á Norðurlöndum, sem sáu að þá vantaði þessa þjónustu inn í reksturinn. Þannig hófst okkar vegferð á Norðurlöndunum,“ útskýrir Hreggviður.
Ceedr er í dag með starfsemi í þremur norrænum löndum auk Íslands og er vöxturinn mestur í Danmörku og Finnlandi að sögn Hreggviðs. Stofan beitir sér fyrir því að fara nýjar og framúrstefnulegar leiðir. Hún notar til þess nýjustu tækni, hvort sem um er að ræða gervigreind eða nýjungar í risatólum eins og Google, Microsoft, TikTok og Meta.
Velta Ceedr á þessu ári hefur aukist um 40% frá því á sama tíma á síðasta ári. Það endurspeglar að sögn Hreggviðs þörf fyrirtækja fyrir dýpri þekkingu á stafrænni markaðstækni. „Sú þörf mun aukast enn frekar með auknum áhrifum þessarar tækni á markaðinum,“ segir Hreggviður.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.