Talsverðar tafir hafa orðið á sendingum frá netversluninni Boozt til landsins að undanförnu. Má rekja það til afsláttardaga í nóvember en föstudagurinn 29. nóvember, svartur föstudagur, var stærsti söludagur í sögu netverslunarinnar Boozt.
Biðin fer þó að taka enda og segir svæðisstjóri Boozt á Íslandi að jólagjafir muni skila sér til landsins í tæka tíð fyrir hátíð ljóss og friðar.
„Það var algjör metsala hjá okkur á svörtum föstudegi og fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Sylvía Clothier Rúdolfsdóttir, svæðisstjóri Boozt á Íslandi.
Segir hún að mikið álag hafi orðið vegna metsölunnar sem hafi leitt til þess að stór hluti pantana hafi verið sendur til landsins með skipi sem taki lengri tíma. Vanalega koma pantanir landsmanna með flugvélum sem nú eru fullar.
Sylvía segir að viðskiptavinir hafi þó mætt töfum með þolinmæði og skilningi. Hún telur þó einnig að fyrirtækið geti dregið lærdóm af sölunni í ár.
„Þegar það verður svona álagstímabil á næsta ári þá vonandi lærum við af þessu þannig að við getum reynt að standa við okkar loforð um afhendingartímann.“
Afsláttardagurinn sem kenndur er við svartan föstudag var 29. nóvember í ár, sem er mun nær mánaðarmótum en oft áður. Þá fengu margir laun sín greidd út þennan dag, því föstudagurinn svarti var einnig síðasti virki dagur mánaðarins.
Sylvía segir klárt mál að það hafi haft áhrif. Fyrirtækið hafi verið búið að lengja herferð sína og sala hafi byrjað að aukast á ákveðnum mörkuðum þar sem laun eru greidd 25. hvers mánaðar.
„Á mörkuðum eins og á Íslandi og í Danmörku og fleirum, þar sem að útborgun er í kringum mánaðarmótin, þá bara sprakk allt,“ segir Sylvía og nefnir að um hafi verið að ræða stærsta dag fyrirtækisins.
„Við bjuggumst ekki við þessu. Efnahagsástandið er krefjandi þannig maður veit ekki alveg við hverju maður á að búast.“
Segir Sylvía að fyrirtækið reyni eftir sinni bestu getu að upplýsa viðskiptavini með tölvupóstum og skilaboðum í síma.
„Svo fór út annar tölvupóstur í dag þar sem við létum fólk vita að þetta muni allt skila sér fyrir jól,“ segir hún og nefnir að stærstur hluti pantananna séu jólagjafir.
Þá segir hún fyrirtækið komið yfir hallann núna og að síðasti dagur til að panta fyrir jól sé ekki liðinn. Hægt verði að kaupa jólagjafir hjá Boozt til 17. eða 18. desember.
Vöruskil Boozt á Íslandi fara í gegnum fyrirtækið Dropp og má sjá á vefsíðu fyrirtækisins stöðuna á pöntuðum vörum Íslendinga.
Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp, hefur sömu sögu að segja er mbl.is náði af honum tali.
„Fólk er bara forvitnast um stöðuna af því þetta eru mestmegnis jólagjafir. Fólk vill bara vera visst um að þetta sé enn þá á leiðinni og allt í vinnslu,“ segir Hrólfur en tekur fram að flestir haldi nú ró sinni.
Þá nefnir hann að sala hafi aukist mikið hjá öllum verslunum sem fyrirtækið sér um afhendingu vara fyrir en að þeir sem hafi pantað hjá Boozt geti verið rólegir.
„Þetta er bara aðeins lengur að komast til Íslands og er að vinnast niður nokkuð hratt.“