Pólska flugfélagið LOT mun hefja flug á milli Varsjár og Keflavíkurflugvallar 12. apríl á næsta ári. Flugfélagið er það stærsta í Póllandi og verður þetta í fyrsta sinn sem það flýgur til Íslands.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Þar segir meðal annars að flugfélagið ætli að fljúga til Íslands allt árið um kring. Stefnt sé að því að fljúga fjórum sinnum í viku til Íslands yfir sumartímann og þrisvar sinnum í viku yfir vetrartímann.
„Við hjá Keflavíkurflugvelli hlökkum til að taka á móti LOT og farþegum félagsins á næsta ári. Það er alltaf ánægjulegt að bjóða ný félög velkomin í flugvallarsamfélagið á Keflavíkurflugvelli og er ég þess fullviss að LOT verður öflugur samstarfsaðili inn í framtíðina,“ er haft eftir Grétari Má Garðarssyni, forstöðumanni flugfélaga og leiðaþróunar á Keflavíkurflugvelli.
Flugfélagið LOT er með elstu flugfélögum í heimi og fagnar 96 ára afmæli í lok þess árs. Félagið flýgur til yfir 80 áfangastaða í Asíu, Mið-Austurlöndum, Evrópu og Norður-Ameríku.