Athafnamaðurinn Bjarni K. Þorvarðarson hefur komið víða við á ferli sínum, bæði hér heima og erlendis.
Eitt eftirminnilegasta verkefnið sem Bjarni tók þátt í var lagning nýs sæstrengs milli New York og London – fyrsta nýja sæstrengsins yfir Atlantshafið í mörg ár.
„Það sem gerði þetta einstakt var að þetta var stysti sæstrengurinn milli London og New York sem hafði nokkurn tíma verið lagður. Það þýddi að gagnaflutningur milli borganna styttist um 4-5 millisekúndur miðað við eldri strengi. Fyrir flesta skiptir það kannski ekki öllu máli, en fyrir þá sem eiga viðskipti á hlutabréfamörkuðum í London og New York, sérstaklega í svokölluðum hátíðniviðskiptum (HFT), var það gríðarlegt forskot,“ segir hann.
Spurður um ásakanir um svindl í tengslum við hátíðniviðskipti bendir Bjarni á að slík viðskipti séu enn í fullu fjöri.
„Það eru settar reglur til að jafna leikinn, en það er ekki hægt að koma í veg fyrir að einhver sé einfaldlega hraðari en aðrir. Þetta hefur alltaf verið þannig – áður en sæstrengir komu til sögunnar var það einfaldlega spurning um hvaða skip sigldi hraðast með skeytið yfir hafið,“ segir hann.
Bjarni segir að eitt afdrifaríkasta augnablikið á ferli sínum hafi verið þegar hann kláraði fjármögnun á nýja sæstrengnum árið 2015. „Strengurinn kostaði 170 milljónir dala og það var alls ekki augljóst fyrir alla að þörf væri á nýjum streng yfir Atlantshafið – menn töldu nóg til af þeim,“ útskýrir hann.
Hann segir að það hafi tekið þrjú ár að sannfæra fjárfesta um að leggja nýjan streng, en að lokum hafi það tekist. „Að klára þá fjármögnun og leggja strenginn var stór stund – það var eins og við hefðum farið nokkra hringi í kringum hnöttinn til að hitta fjárfesta og samstarfsaðila,“ segir hann. „Ég sé ekki eftir þeim þremur árum,“ bætir Bjarni við, „enda tel ég að ef menn hafa trú á verkefninu þá sé það aldrei í boði að gefast upp. Þessi nýi strengur var mun arðsamari en þeir eldri og bjó til grunninn að hagfelldri sölu Hibernia árið 2017.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum.