Samtök iðnaðarins kynna nýja skýrslu um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi í dag. Heildarniðurstaða skýrslunnar er mikil innviðaskuld sem beint dregur úr lífskjörum landsmanna.
Fram kemur að skuld þessi nemi um 680 milljörðum króna og bent á að skuldin veltist einungis áfram og verði stærri með hverju árinu. Lítið sé gert.
Mest sé það uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu eða um 265-290 milljarðar króna.
Því er slegið upp í skýrslunni að með réttu megi segja að viðhaldsskuldin sé form skuldasöfnunar af hálfu hins opinbera þar sem ríki og sveitarfélög eru að velta skuld yfir á komandi kynslóðir með því að fresta nauðsynlegu viðhaldi. Hægur vöxtur innviðakerfisins sé hamlandi fyrir framtíðarvaxtarmöguleika hagkerfisins og geti haft alvarleg áhrif á verðmætasköpun, lífsgæði og samkeppnishæfni landsins.
Framtíðarhorfur að mati höfunda skýrslunnar eru verstar fyrir vegakerfið, hafnir, vatnsveitur, flugvelli og lendingarstaði fyrir utan Keflavíkurflugvöll.